154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

frjósemisaðgerðir.

233. mál
[17:06]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sína fyrirspurn til ráðherra ef horft er fram hjá ja, því miður augljósum undirliggjandi tón sem ber með sér ákveðna tortryggni í garð einkaaðila í ýmiss konar heilbrigðisþjónustu, sem er auðvitað stef sem við þekkjum því miður af hálfu Samfylkingarinnar. En það er kannski óþarfi að dvelja sérstaklega við það hér.

Það er auðvitað synd að þegar einkaaðilar koma og stíga inn í heilbrigðisþjónustuna okkar með því að sinna mikilvægum þáttum sem er alger óþarfi að hið opinbera haldi úti, og geta gert það vel, að því fylgi einhver tortryggni. Það er hins vegar sjálfsagt að spyrja spurninga og vera gagnrýnin á það kerfi sem hér er undir. En ég myndi halda að það væri nær lagi að breyta reglugerðinni, sem við erum nú að gera smám saman, og beina hvatningu til hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) um að gera skurk í að auka niðurgreiðslu sjúkratrygginga í þessar aðgerðir. (Forseti hringir.) Fyrir liggur frumvarp af minni hendi sem gerir nákvæmlega það. Þannig hjálpum við fólki sem best sem er í þessum vanda (Forseti hringir.) í stað þess að gera lítið úr þeim aðilum sem eru að bjóða upp á þessa þjónustu.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna hv. þingmenn á að stuttar athugasemdir mega taka 1 mínútu.)