131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Mælendaskrá í athugasemdum um störf þingsins.

[13:55]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli á því misvægi sem er í aðstöðu manna á Alþingi. Hæstv. forsætisráðherra bað um orðið á undan mér en hann er hins vegar látinn ljúka umræðunni með pólitískum boðskap, með innleggi í umræðuna sem aðrir hefðu ella svarað. Þetta er því miður lýsandi dæmi um hvernig Alþingi vinnur í seinni tíð á forsendum meiri hlutans á Alþingi og á forsendum ráðherra í ríkisstjórn. Mér finnst þetta vera óeðlileg vinnubrögð. Við veitum framkvæmdarvaldinu aðhald og eigum að njóta jafnræðis, alla vega þegar kemur að umræðu í þinginu.