131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Mælendaskrá í athugasemdum um störf þingsins.

[13:56]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við eigum öll að vita hvernig við höfum verið að þróa dagskrárliðinn sem við köllum Um fundarstjórn eða Athugasemdir um störf þingsins. Fram kom í umræðunni fyrr í vikunni að menn hafa verið að þróa umræðuna með þeim hætti að opna möguleikann á því að hægt sé að taka upp mál sem efst er á baugi hverju sinni. Það hefur verið gert með þeim hætti að einhver hv. þingmaður vekur máls á tilteknu máli og beinir því gjarnan til fulltrúa ríkisstjórnarinnar. Þess vegna er ekki óeðlilegt að umræðunni sé síðan lokið með þeim hætti að sá hv. þingmaður sem hefur umræðuna, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson í þessu tilviki, sé síðastur almennra þingmanna til að taka til máls og sá hæstv. ráðherra sem málinu er beinlínis beint til hafi tækifæri til að svara fyrir sig, bæði athugasemdum þeim sem hv. þingmaður hefur fram að færa og öðrum athugasemdum frá öðrum hv. þingmönnum.

Þetta hefur verið að þróast svona og við þurfum ekki að vera að hreykja okkur á einhverri hneykslunarhellu og tala um að þetta sé einhver ný aðferð. Þetta hefur einfaldlega verið að þróast svona og mér hefur fundist að um þetta ríkti prýðileg sátt, menn væru ágætlega sáttir við að hafa þetta fyrirkomulag.

Stundum hefur verið fundið að því að menn fari út um víðan völl í umræðum um störf þingsins og um fundarstjórn forseta. Ég hef hins vegar talið nauðsynlegt að til að menn gætu komið sjónarmiðum sínum á framfæri og veitt framkvæmdarvaldinu aðhald að þeir hefðu þetta tækifæri. Þess vegna undrar mig mjög að hv. þingmaður sem hefur m.a. verið nokkuð fyrirferðarmikill í því með sjálfsögðum og eðlilegum hætti að nýta sér þetta fundarform skuli nú vera að reyna að gera það tortryggilegt hvernig það hefur verið að byggjast upp í prýðilegri sátt bæði stjórnar og stjórnarandstöðu.