131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

591. mál
[19:05]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Málið er á þskj. 884 og er 591. mál þingsins. Ég mæli einnig fyrir frumvarpi til laga um Neytendastofu og talsmann neytenda á þskj. 885, 592. mál þingsins.

Frumvörpin eru lögð fram samhliða frumvarpi til samkeppnislaga en það var samið með hliðsjón af niðurstöðu nefndar um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis. Nefndin taldi nauðsynlegt að efla eftirlit með samkeppnishömlum á markaði og lagði til að þetta yrði m.a. gert með því að skilja að eftirlit með samkeppnishömlum annars vegar og eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins hins vegar.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að ekki verði lengur unnið að þessum málaflokkum í Samkeppnisstofnun heldur falli þeir undir nýja stofnun, Neytendastofu, sem ætlað er að fara með neytendamál.

Nokkur eðlismunur er á eftirliti með samkeppnishömlum og neytendavernd. Þótt hagsmunir til afskipta af fyrirtækjum geti farið saman þá þykir fara betur á því að skipta starfsemi Samkeppnisstofnunar upp. Er þessi breyting í samræmi við það sem almennt gerist á Norðurlöndum. Með breytingunni er ætlunin að leggja meiri áherslu á neytendamál og efla starf að neytendavernd. Ákvæði frumvarpsins eru flest sambærileg ákvæðum VI. og VII. kafla núgildandi samkeppnislaga.

Ég mun þá gera grein fyrir frumvarpi til laga um Neytendastofu og talsmann neytenda en frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til samkeppnislaga og frumvarpi því sem ég hef nú gert grein fyrir.

Frumvarpið er tvíþætt. Annars vegar felur það í sér tillögur um að sett verði á fót ný stofnun, Neytendastofa, sem taki við þeim verkefnum Samkeppnisstofnunar sem snúa að eftirliti með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins og þeim verkefnum sem nú eru unnin hjá Löggildingarstofu. Hins vegar er lagt til í frumvarpinu að sett verði á stofn embætti talsmanns neytenda. Jafnframt er gert ráð fyrir að Samkeppnisstofnun og Löggildingarstofa verði lagðar niður. Í frumvarpinu eru einnig lagðar til nauðsynlegar breytingar á þeim lögum sem nú heyra undir Löggildingarstofu og Samkeppnisstofnun.

Helsta markmiðið með stofnun Neytendastofu er að efla starf að neytendamálum og þar með auka neytendavernd. Þau verkefni sem koma til með að heyra undir hina nýju stofnun snerta öll hagsmuni neytenda með einum eða öðrum hætti. Eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins auk opinberrar markaðsgæslu og eftirlits með öryggi vöru eru þeir málaflokkar sem augljóslega teljast til neytendamála, en mælifræði og málefni er varða rafmagnsöryggi varða einnig hagsmuni neytenda og eiga því vel heima í hinni nýju stofnun. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Neytendastofu verði einnig falin þau verkefni sem nú heyra undir Samkeppnisstofnun og Löggildingarstofu samkvæmt ákvæðum annarra laga en þeirra sem stofnunin fer með framkvæmd á.

Í frumvarpinu er lagt til að skipuð verði sérstök áfrýjunarnefnd neytendamála þangað sem hægt verði að skjóta stjórnvaldsákvörðunum sem teknar eru á grundvelli laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu og annarra laga sem heyra undir Neytendastofu og hafa að geyma heimild til málskots. Tillagan er gerð í ljósi þess hve mikilvægt er að hægt sé að skjóta stjórnsýsluákvörðunum til æðra stjórnvalds, en sérstakar áfrýjunarnefndir hafa reynst vel og má þar t.d. nefna áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Samkvæmt núgildandi lögum er heimilt að skjóta ákvörðunum sem byggjast á ákvæðum samkeppnislaga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Hins vegar er ekki heimild í lögum nú til að skjóta ákvörðunum Löggildingarstofu um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu til æðra stjórnvalds.

Í frumvarpinu er lagt til það nýmæli að sett verði á stofn embætti talsmanns neytenda. Gert er ráð fyrir því að viðskiptaráðherra skipi talsmann neytenda til fimm ára í senn. Lengi hafa verið uppi raddir um að stofna skuli embætti umboðsmanns neytenda hér á landi en slík embætti hafa starfað lengi á hinum Norðurlöndunum. Við vinnu þá sem farið hefur fram í kjölfar skýrslu nefndar um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis var fjallað um málið og ákveðið að stofna sérstakt embætti sem hefði það hlutverk að taka við erindum frá neytendum, gefa út álitsgerðir og hafa frumkvæði að úrbótum, sem sagt vera talsmaður neytenda.

Í ljósi þess að embættisheitið umboðsmaður hefur öðlast mjög ákveðna merkingu í hugum þjóðarinnar á þeim tíma sem liðinn er frá stofnun embættis umboðsmanns Alþingis og umboðsmanns barna og þess að tillögur þess frumvarps sem hér er mælt fyrir falla ekki að öllu leyti að þeirri skilgreiningu sem yfirleitt er notuð um umboðsmann, er gerð tillaga um að embættisheitið talsmaður verði notað hér. Lagt er til að starfsemi talsmanns neytenda verði í tengslum við starfsemi Neytendastofu, þó þannig að sjálfstæði talsmanns neytenda sé að fullu tryggt. Þannig er ekki gert ráð fyrir að talsmaður neytenda hafi sérstaka starfsmenn á sínum vegum heldur að hann nýti starfsmenn Neytendastofu sér til aðstoðar við dagleg störf og undirbúning mála.

Rétt er að taka fram að embætti talsmanns neytenda er ekki ætlað að taka við verkefnum sem stjórnvöldum hefur verið falið að vinna samkvæmt lögum og verður það í verkahring Neytendastofu að taka stjórnvaldsákvarðanir á grundvelli þeirra laga sem henni er ætlað að sjá um framkvæmd á. Talsmanni neytenda er heldur ekki ætlað að fara inn á verksvið umboðsmanns Alþingis með því að láta í ljós álit á því hvort stjórnvöld hafi brotið gegn lögum eða góðum stjórnsýsluháttum við meðferð einstakra mála.

Hæstv. forseti. Með stofnun Neytendastofu og embættis talsmanns neytenda er stigið stórt skref í þágu neytenda. Talsmanni neytenda er ætlað að standa vörð um hagsmuni og réttindi neytenda og stuðla að aukinni neytendavernd. Hlutverk hans mun m.a. felast í því að taka við erindum neytenda, bregðast við þegar hann telur brotið gegn réttindum og hagsmunum neytenda, gefa út rökstuddar álitsgerðir ásamt tillögum um úrbætur, setja fram tillögur um úrbætur á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum er varða neytendur sérstaklega og kynna löggjöf og aðrar réttarreglur er varða neytendamál.

Neytendastofu er ætlað að vinna að stefnumótun á sviði neytendamála auk þess sem stofnunin skal beita sér fyrir því að gerðar verði rannsóknir á sviðinu. Þá mun Neytendastofa annast söfnun, úrvinnslu og útgáfu upplýsinga á sviði neytendamála sem og önnur verkefni sem stofnuninni verða falin með lögun eða ákvörðun ráðherra. Neytendastofa mun einnig annast framkvæmd laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins og laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að þessum frumvörpum verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.