133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

samkomulag við Færeyjar og Grænland um skipti á ræðismönnum.

69. mál
[12:26]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér ræðum við mál sem fjallar um skipti á ræðismönnum við Grænland og Færeyjar en málið horfir einkennilega við vegna þess að það er hálfklárað. Mér skilst að kominn sé ræðismaður í Færeyjum og þess vegna er mjög undarlegt að vera með þingsályktunartillögu um orðinn hlut svo að segja, alla vega til hálfs, og það er í rauninni mjög sérstakt. Auðvitað eigum við að ræða þessi mál, útþenslu utanríkisþjónustunnar og fara yfir hana í tengslum við þessi mál. Mér finnst það miklu nær, frú forseti, að ræða um það að efla tengslin við þjóðirnar sem eru nær okkur í stað þess að þenja utanríkisþjónustuna í fjarlægar heimsálfur eins og hæstv. utanríkisráðherra virðist vera að gera nú, t.d. með opnun á nýju sendiráði í Suður-Afríku. Maður áttar sig í rauninni ekki á til hvers það er gert og hvers vegna við erum að eyða svo háum fjármunum í Suður-Afríku, maður áttar sig ekkert á tilganginum með því. Eitthvað hefur verið nefnt að það séu hagsmunir Íslands, að þarna eigi nýr sendiherra, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, að reka áróður fyrir því að við komumst inn í öryggisráðið og verja eigi til þess jafnvel mörg hundruðum milljónum að komast í það sæti. Ég skil ekki að við Íslendingar höfum neitt að gera þar inn vegna þess að það ráð tekur ákvörðun um hvort fara eigi með stríð á hendur öðrum þjóðum eða beita þær viðskiptaþvingunum. Mér finnst miklu nær að við lítum til þess máls sem hér er um að ræða, að efla tengsl við þær þjóðir sem eru næst okkur og þar liggja gríðarleg tækifæri, mjög mikil tækifæri.

Ég vil nefna að tækifærin liggja í ferðamennsku, að Ísland verði í raun miðstöð fyrir ferðamennsku á Vestur-Norðurlöndum og héðan verði síðan tengiflug í allar áttir, til Grænlands, Færeyja og þeirra slóða sem margir ferðamenn eiga eftir að heimsækja. Síðan eru auðvitað auðlindirnar, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, benti á, Grænland býr yfir gríðarlegum auðlindum og hér var nefndur fiskurinn. Fréttir berast af því að þorskurinn sé kominn á ný af fullum krafti inn í rannsóknarveiði á Grænlandi og að veiðin þar sé allt frá einu og upp í 30 tonn á togtíma sem er gríðarlega mikil veiði, bæði við austur- og vesturströndina. Þetta eru mjög athyglisverðar fréttir, sérstaklega í ljósi þess að þarna var enginn hrygningarstofn fyrir og að veiðar eru í raun bannaðar við Grænland, þar eru veiðar bannaðar nema innan skerja, og sú staðreynd sem þarna kemur upp að þessi mikli blómi sé í hafinu og fiskgengd þrátt fyrir að þarna sé enginn hrygningarstofn. Við Íslendingar ættum að skoða þessi mál og fara mjög rækilega yfir þau og sjá hvort við getum ekki komið eitthvað að þeim og lagt okkar hönd á plóg að þessi fiskveiðiauðlind nýtist sem best, komið upp vinnslum og samskiptum við Grænlendinga til að þessi auðlind nýtist sem allra best.

Þetta leiðir hugann að því, af því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson leiddi talið að ofveiði að mér heyrðist, að stundum virðist sem áhrif veiða mannsins á dýrastofnum séu ofmetin. Þegar fréttir berast utan úr heimi um fiskgengd og hvað hafi valdið því að einhver fiskstofn hafi legið í dvala um hríð þá virðast þær stundum að einhverju leyti vera byggðar á misskilningi eða hreinni og klárri vitleysu. Ég vil nefna í því sambandi stofn við Kanada sem hvarf á tímabili. Það er mjög athyglisvert, ef menn skoða þá fiskgengd sem við gætum komið að með ræðismanni í Grænlandi, og aðstoðað Grænlendinga við að nýta og komið á samskiptum milli íslenskra og grænlenskra fyrirtækja, að einmitt þorskstofninn við Grænland og þorskveiðin þar minnkaði á nákvæmlega sama tíma og hún minnkaði í Kanada þannig að það virðast að einhverju leyti hafa verið umhverfisþættir sem hafa valdið því.

Ríkisútvarpið sagði á dögunum fréttir af þessum tíðindum, af þessari nýju vísindaskýrslu frá Kanada, um að þetta hefðu verið einhver umhverfisáhrif sem rekja mætti til hlýnunar jarðar sem hefðu valdið því að sjórinn hefði hlýnað og þess vegna hefðu lífsskilyrði þorsksins versnað. Það var alrangt, þessi skýrsla sagði bara allt annað og ég hef bent fréttamönnum Ríkisútvarpsins á að þeir hafi í rauninni verið að flytja tóma vitleysu vegna þess að vísindaskýrslan sagði að hafstraumar sem komið höfðu alla leið frá Barentshafinu hefðu aukið þarna strauma og bráðnun íss sem síðan hefði legið meðfram vesturströnd Kanada. Þarna hefði komið djúpt lag af ferskum köldum sjó, pólsjó, sem hefði í rauninni leitt til kólnunar og ekki bara kólnunar heldur líka lagskiptingar sem leiddi síðan til þess að ekki varð sú blöndun sem gjarnan verður yfir vetrartímann þegar yfirborðslög kólna og eðlisþyngdin vex og það verður blöndun. Þessir sérfræðingar rekja það til þess að vegna þess að að þessi blöndun varð ekki hafi það að einhverju leyti komið niður á dýrastofnum, á þorskstofninum, en alls ekki til þess að sjórinn hafi hitnað. Þetta var allt annað, sjórinn hafði nefnilega kólnað. Í fréttatímum Ríkisútvarpsins var þessu öllu snúið á haus og síðan hringt í fiskifræðing úti á sjó og hann þurfti í rauninni að gefa álit á hreinni og klárri dellu þannig að vitleysan vatt algerlega upp á sig. Ég vona að Ríkisútvarpið sjái að sér og leiðrétti þetta því að það er ekki hægt að bera á borð fyrir almenning hreina og klára vitleysu. Ef slíkt gerist á að leiðrétta það í fréttatíma þannig að fólk fái rétta mynd af gangi mála en koma ekki með rangar fréttir inn í stofur landsmanna. Ég hef bent fréttastjóra á að þetta sé ekki rétt og ég vona svo sannarlega að hann taki tillit til þess.

Við getum lært mikið af þessum þjóðum, við eigum ekki að líta svo á að við ætlum eingöngu að færa þeim upplýsingar, tækni og vera gefendur í þessum málum heldur getum við einnig verið gríðarlegir þiggjendur og þá vil ég nefna sérstaklega vini okkar í Færeyjum, fyrir austan okkur. Þar getum við lært mjög margt af Færeyingum, sérstaklega hvernig þeir hafa stýrt fiskveiðum með miklu árangursríkari hætti en við höfum gert. Þeir hafa gert það með því að koma á sóknarkerfi á meðan við búum við kvótakerfi. Mér heyrist nú að Framsóknarflokkurinn með sjálfan hv. þm. Jón Kristjánsson, formann stjórnarskrárnefndar, vilji jafnvel festa þá vitleysu sem kvótakerfið er algerlega í sessi og koma því inn í stjórnarskrá. Það er fádæma vitleysa. Það byggir m.a. á því að sé einn fiskur dreginn t.d. á Austfjörðum, þaðan sem hv. þingmaður kemur, eigi annar fiskur að koma syndandi alla leið vestan af fjörðum og fylla í það skarð vegna þess að sé sama hvaðan fiskurinn er tekinn það komi einhver annar af öðrum slóðum og fylli í skarðið sem hann var tekinn. Þetta er alger vitleysa.

Ég vona að menn sjái að sér og líti til þess hve Færeyingar hafa náð miklum árangri og ég vonast sannast sagna til þess að það verði fyrsta verkefni nýs ræðismanns, vegna þess að fluttar hafa verið tillögur á Alþingi, m.a. af hv. þm. Hjálmari Árnasyni og síðan af okkur í Frjálslynda flokknum, um að fara að líta til árangurs og kosta færeyska kerfisins við að stjórna fiskveiðum sem ég get ekki betur séð en séu algerlega ótvíræðir en þetta hefur alltaf verið svæft. Það er eflaust vegna þess að bæði Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ráða ekkert við þau stóru hagsmunasamtök sem vilja hafa óbreytt kerfi og hafa yfir veiðiheimildum að ráða þó svo að öll skynsemi segi að það sé hrein og klár vitleysa. Það gengur kannski upp stjórnsýslufræðilega að hægt sé að úthluta einhverjum kílóum af þorski og einhverri hlutdeild og mögulega út frá lagatæknilegum sjónarhóli en út frá almennri skynsemi og sárri reynslu okkar Íslendinga gengur það alls ekki upp, kerfi sem gengur út á það að fiskur komi syndandi af Vestfjörðum til að fylla í skarð einhvers annars sem dreginn er á Austfjörðum. Þetta er tóm vitleysa.

Þegar við ræðum svona mál sem auka kostnað utanríkisþjónustunnar er rétt að fara yfir þau með mjög gagnrýnum hætti, frú forseti. Það er vert að huga að því að árið 1998 var hlutfall utanríkisþjónustunnar af ríkisútgjöldum 1,7% en það hefur vaxið gríðarlega, um 50–60% og er orðið 2,6% árið 2007. Á föstu verðlagi hefur orðið þarna gríðarleg hækkun, það hefur orðið nær tvöföldun. Menn verða að huga að því hvort það sé skynsamleg uppbygging sem farið hefur fram í utanríkisþjónustunni að eyða 1.770 milljónum árlega í sendiráð hingað og þangað um heiminn og vera með marga tugi sendiherra út um víðan völl og ef ég man rétt á annan tug sendiherra sem eru staðsettir hér á landi. Ég tel þetta alls ekki skynsamlegt og það er alls ekki skynsamlegt að vera með sendiráð eins og í Suður-Afríku. Það er ekki forsvaranlegt fyrir þjóð sem býður öldruðum upp á það að deila herbergi með ókunnugum eins og hv. þingmaður og fyrrum heilbrigðisráðherra þekkir mjög vel. Hann hefur búið svo um kerfið eftir að hafa stýrt heilbrigðisráðuneytinu mjög lengi að (Gripið fram í.) öldruðu fólki á Íslandi er gert að búa í þvingaðri sambúð með fólki sem það þekkir ekki neitt. Á meðan er verið að efla sendiráðin út um allan heim. Mér finnst það vera mjög gagnrýnisvert, frú forseti. Samt sem áður er ég tilbúinn að skoða það með jákvæðum hug að koma á bættum samskiptum við Færeyjar og Grænland vegna þess að þetta eru samskipti sem við eigum að efla. Við höfum þarna ónýtt viðskiptatækifæri eins og ég nefndi hvað varðar fiskveiðiauðlindina, ferðamennskuna og margt fleira, einnig til að koma á betri tengslum hvað varðar heilbrigðisþjónustu og tengja þessar þjóðir betur saman. Þarna eru verkefni en ég átta mig bara ekkert á því til hvers verið er að stofna sendiráð út um allan heim. Þessi stefna hjá stjórnvöldum er mjög gagnrýnisverð.

Auðvitað eigum við miklu frekar að efla þá þjónustu og efla utanríkisþjónustuna t.d. í Brussel þar sem mikið af regluverki Íslendinga verður til. Það er eðlilegt að það sé mikil áhersla þar og einnig í New York þar sem alþjóðastofnanir eru og Sameinuðu þjóðirnar. Það skiptir máli. En að fara með þetta út um allan heim og jafnvel að búa til skrifaðstöðu fyrir einhverja sem eru inn undir hjá stjórnarflokkunum eins og mér sýnist menn vera að gera í Suður-Afríku, að vera að búa til einhverja skrifaðstöðu undir því yfirskini að það sé til að afla því fylgis að Ísland fái sæti í öryggisráðinu 2009–2010, það er af og frá að það sé nokkur hagur af því fyrir Íslendinga. Við verðum að gæta að því að enda þótt við séum stolt og mikil þjóð erum við ekki nema 300 þúsund og við eigum þá að velja okkur verkefni eftir því en ekki að hegða okkur eins og margmilljónaþjóð og dreifa sendiráðum í allar áttir. Við eigum einmitt að velja okkur verkefni eins og þau sem koma fram í þessu máli, að efla tengsl við nágrannaþjóðir, tengsl sem mættu vera miklu nánari og eru til hagsbóta fyrir þessar þrjár þjóðir sem eru nefndar í þessari þingsályktunartillögu. Þetta mál er því allt hið jákvæðasta.

Einhverra hluta vegna er kominn ræðismaður í Færeyjum og það væri fróðlegt að fá að heyra það frá formanni utanríkismálanefndar hvort hann hafi frétt af einhverjum verkefnum hjá viðkomandi, hvort t.d. hafi verið farið yfir þau mál sem ég nefndi og væri nærtækast að skoða, þ.e. hvort menn hafi farið í það að skoða árangur Færeyinga við að stýra fiskveiðum og rætt það við færeysk stjórnvöld. Þar gengur útvegurinn mjög vel. Hér er því miður helmingi minni þorskafli en áður þegar við tókum að stýra honum með því að ákveða fyrir fram hver aflinn yrði ár hvert. Hér er þetta í rauninni í algerlega misheppnað meðan þeir fá í rauninni svipaðan afla og áður og þeir hafa haft í gegnum áratugina. Mér finnst það vera mjög mikilvægt mál fyrir ræðismann Íslands til að vinna að og ég hvet til þess að svo verði gert. Ég hvet einnig til þess að við eflum samstarf við Grænlendinga og skoðum hvernig við getum komið að því að aukin þorskgengd nýtist Grænlendingum sem best. Þarna geta leynst mjög mikil tækifæri fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki að það væri fróðlegt að þetta yrði ein af þeim áherslum sem íslensk stjórnvöld ynnu að.

Að lokum þá tel ég að þessi þingsályktunartillaga sé góðra gjalda verð og að þetta séu miklu nærtækari verkefni fyrir okkur Íslendinga að vinna að, þ.e. að efla samskipti við nágranna okkar í stað þess að dreifa kröftunum út um alla heimsbyggðina.