136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:30]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér við 2. umr. frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands. Það er ljóst að frumvarpið hefur tekið töluverðum breytingum í meðförum hv. viðskiptanefndar og því ber að fagna.

Mig langar að nefna nokkur atriði í frumvarpinu sem ég nefndi reyndar í fyrri ræðu minni, þegar frumvarpið var lagt fram, og geri enn að umtalsefni. Í fyrsta lagi held ég að það sé til bóta að fækka árunum, að þau séu fimm í stað í sjö, það er til samræmis við stjórnunarstöður hjá ríkinu að öðru leyti — sú tillaga að stytta skipunartímann úr sjö árum í fimm er til bóta. Ég vil hins vegar taka undir með minni hluta viðskiptanefndar hvað varðar hæfniskröfu seðlabankastjóra, að sá þáttur verði víkkaður út. Hver ætlar að meta hvað þessi orð „í tengdum greinum“ þýða í breytingartillögu hv. meiri hluta nefndarinnar? Hvaða greinar eru tengdar hagfræði? Hver metur hvað það er og hvað ekki? Ég tel að breytingartillagan við 3. gr. frá minni hluta viðskiptanefndar, um að seðlabankastjóri og aðstoðarseðlabankastjóri skuli hafa lokið háskólaprófi og búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi og efnahags- og peningamálum, opni dyr fyrir fleiri hæfa einstaklinga til að sækja um það mikilvæga embætti sem seðlabankastjóraembættið og aðstoðarseðlabankastjóraembættið verða.

Ég fagna því líka að komin sé fram sú breytingartillaga að hér skuli vera aðstoðarseðlabankastjóri. Það er jafnframt fagnaðarefni að fram komi breytingartillaga um hvernig staðið skuli að umsókninni, að hér sé lagt til að skipuð verði hæfnisnefnd sem fari yfir og meti einstaklinga og leggi til við hæstv. forsætisráðherra hver verði skipaður í hvort embætti fyrir sig. Það er til bóta og maður verður að treysta því að við ráðningu ráði hæfni einstaklingsins fyrst og síðast en ekkert annað. Hæfni einstaklingsins fyrst og síðast, hún á og verður að skipta meginmáli.

Í öðru lagi vil ég nefna að ég sakna þess enn — þrátt fyrir þær veigamiklu breytingar sem gerðar eru á þessu frumvarpi, og ég tel flestar þeirra ef ekki allar til bóta — að hv. viðskiptanefnd skuli ekki, eins og fram hefur komið í ræðum fleiri þingmanna, hafa tekið á peningastefnunni samhliða því að verið er að skipa peningastefnunefnd. Peningastefnan skiptir meira máli en nefndin sjálf, hún skiptir meginmáli — hvaða peningastefnu við ætlum að hafa og hvernig við ætlum að vinna okkur út úr þeim vanda sem við blasir, og þar skiptir peningastefna Seðlabankans miklu máli.

Ég gagnrýni að vald sé flutt frá seðlabankastjóra til forsætisráðherra í ráðningu þeirra sem sitja eiga í peningastefnunefnd, og ég tek undir það með hv. þm. Ólöfu Nordal, sem hér talaði á undan mér, að sett verði á laggirnar hæfisnefnd, störfin verði auglýst og þannig verði ráðið í þá nefnd. Það skiptir okkur miklu máli að í hana fáist hæfir einstaklingar sem eru hafnir yfir alla hlutdrægni og allan efa. Samhliða því — ef við horfum á breytingartillögur við 5. gr., um að nefndarmönnum í peningastefnunefnd, sem forsætisráðherra skipar, sé óheimilt að sinna störfum sem til þess eru fallin að draga hlutdrægni þeirra í efa — veltir maður því fyrir sér að á undanförnum mánuðum hafa prófessorar við háskólana verið manna virkastir í að tjá hug sinn um það hvað fór miður og hvernig bregðast hefði átt við í þeim málum sem við var að glíma.

Eru þeir hæfir í peningastefnunefndina? Ef þeir eru hæfir mega þeir þá ekki tjá sig sem prófessorar í sínum greinum við háskólana í landinu vegna þess að þá gæti hlutdrægni þeirra eða hlutleysi þeirra verið dregið í efa? Þetta þarf að skoða vendilega. Ég held því að hæfisnefnd þurfi að vera til og hún þarf að setja sér markmið um það með hvaða hætti hún ætlar að velja aðila inn í þessa nefnd. Þetta verður „Nefndin“, með stórum staf og greini, sem kemur til með að skipta íslenska þjóð meginmáli á næstu árum.

Því segi ég enn og aftur að ég hefði kosið að í þessu ágæta frumvarpi hefði verið skoðað með hvaða hætti við ætlum að haga peningamálastefnu þjóðarinnar. Ég vænti þess að á milli umræðna taki hv. viðskiptanefnd í það minnsta til skoðunar þær athugasemdir sem settar hafa verið fram af okkur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.

Að lokum, virðulegur forseti, verð ég að spyrja, vegna þess að mér þykir ákvæði I til bráðabirgða ekki vera ljóst, og það þarf að vera ljóst – það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 26. gr. laganna skal Alþingi eins fljótt og unnt er eftir gildistöku laga þessara kjósa bankaráð Seðlabanka Íslands ásamt varamönnum. Frá sama tíma fellur niður umboð þeirra er þá sitja í bankaráðinu.“

Hvað er átt við með orðunum: „Frá sama tíma …“ — er þá átt við frá gildistöku laganna eða mun núverandi bankaráð sitja þar til nýtt bankaráð hefur verið skipað? Ég tel að orðalagið hér geti valdið misskilningi og væri gott að fá svar við því.

Ég óska þess að hv. viðskiptanefnd og hæstv. ríkisstjórn, sem situr hér sem minnihlutaríkisstjórn, muni ekki skipa bankaráð Seðlabankans á næstu dögum, hún muni bíða með það fram yfir kosningar þannig að það verði þeir sem hljóta meiri hluta á þingi sem skipi bankaráðin en ekki minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Mér þykir hins vegar jafnmiður að á sama hátt og áður eigi að skipa í bankaráð Seðlabanka Íslands, að pólitísk flokksskírteini ráði þar mestu. Ég hefði kosið að önnur færari leið hefði verið sett fram til þess að skipa í bankaráð en með þeim hætti.

Að lokum tel ég breytingartillögu í nefndaráliti frá minni hluta viðskiptanefndar á þskj. 570 skynsamlega, en þar stendur, með leyfi forseta:

„Við gildistöku þessa ákvæðis skal bankaráð, þrátt fyrir 2. mgr. 24. gr. laganna, skipa annan tveggja sérfræðinga á sviði efnahags- og peningamála til fjögurra ára.“

Samhliða tel ég breytingartillögu frá meiri hluta viðskiptanefndar, á þskj. 567, skynsamlega en þar kemur fram að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 23. gr. laganna skuli aðstoðarseðlabankastjóri að undangenginni auglýsingu vera skipaður til fjögurra ára í stað fimm. Það er skynsamlegt með tilliti til þess að skipunartími seðlabankastjórans og aðstoðarseðlabankastjóra renni út á sama tíma.

Virðulegur forseti. Ég vænti þess að að lokinni 2. umr. verði frumvarpinu vísað til 3. umr. þar sem nefndarmönnum gefst þá tækifæri til þess að fara yfir þær athugasemdir sem hér hafa komið fram. Ég ítreka að breytingartillögur við frumvarpið eru til bóta.