138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

atvinnu- og efnahagsmál -- þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave.

[14:01]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er ástæða til að þakka þá ágætu umræðu sem hérna er um atvinnumál þó að lengi megi deila um hvað var gert og hvað var ekki gert og hvað hefði átt að gera öðruvísi og betur. Mestu skiptir að horfa til framtíðar af því að tækifærin okkar liggja svo sannarlega í því að nýta auðlindirnar okkar með skynsömum en líka nokkuð snörpum hætti á næstu mánuðum og missirum.

Ég fór áðan yfir áætlanir frá fyrirtækjum, orkufyrirtækjum og öðrum sem gera ráð fyrir því að ef þær áætlanir ná fram að ganga sé þar um að ræða 400 milljarða fjárfestingar til ársins 2017 og tæplega 300 milljarða til næstu þriggja ára. Það skiptir gífurlega miklu máli að við myndum samstöðu um þessi verkefni til að skapa ný störf, til að auka gjaldeyristekjur og til að ná öflugri viðspyrnu út úr samdrætti til efnahagsbata.

Við vitum alveg að það er blæbrigðamunur á skoðunum einstakra stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka til einstakra orkunýtingarkosta og það er ekkert nema eðlilegt og jákvætt um það að segja. Þess vegna skiptir rammaáætlunin um vernd og nýtingu mjög miklu máli. Ramminn af henni er nú til umræðu í þingflokkum stjórnarflokkanna og er væntanlegur þaðan. Brátt sjáum við hvernig þeirri forgangsröðun er háttað.

Ég ætla aðeins að tala um umfang stærstu verkefnanna sem núna eru á teikniborðinu og verða bókstaflega að ganga fram á næstu vikum og mánuðum. Það er Búðarhálsvirkjun, eins og var nefnt hér áðan, 600–800 milljónir á þessu ári. Það er álverið í Helguvík, fyrsti áfanginn sem núna er meira og minna búið að undirbúa þarna suður frá en það vantar að reka smiðshöggið í orkunýtingunni. Síðan er það talsverður fjöldi gagnavera bæði í Reykjanesbæ og úti á landi á vegum Greenstone og svo kísilmálmverksmiðjan í Ölfusi. Þetta eru verkefni sem eru bókstaflega á teikniborðinu, þau eru að komast á framkvæmdastig og við höfum það í hendi okkar að koma þeim til framkvæmda. (Gripið fram í.) Þess vegna eigum við að standa saman um að þessi mál gangi fram og gjörbreyti stöðunni á íslenskum atvinnumarkaði (Forseti hringir.) á örfáum mánuðum.