138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

tilfærsla verkefna frá Umhverfisstofnun til Heilbrigðiseftirlits Austurlands.

360. mál
[15:10]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil enn og aftur þakka fyrir góða og gagnlega umræðu og vil taka fram að ég lít á mig sem landsbyggðarmanneskju. Verandi fyrrverandi varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga slær hjarta mitt með landsbyggðinni en ég lít jafnframt svo á að til að geta verið almennileg landsbyggðarmanneskja þurfi maður líka að vera til í að standa fyrir öflugri og kraftmikilli höfuðborg. Þetta verður allt að fara saman.

Hér stendur ráðherra sem stýrir málaflokki þar sem eru 13 ríkisstofnanir, þar á meðal Landmælingar Íslands á Akranesi, Landgræðslan í Gunnarsholti, Skógrækt ríkisins á Egilsstöðum, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri o.s.frv. og það stendur ekki til að draga úr starfsemi úti á landi, ekki á meðan þessi ráðherra fer með málaflokkinn að minnsta kosti. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson kallar eftir efndum og ég er sammála því. Þess vegna hefur þetta átta ára ferli verið sett í þann farveg að ljúka stefnumörkun fyrir júnílok þannig að við getum a.m.k. sammælst um það hver verði næstu skref og við séum ekki að tala út í blámann, hvorki ríkisvaldið né umrædd heilbrigðiseftirlit, og fólk a.m.k. virði hvert annað viðlits. Ég er sammála því að þessu átta ára ferli þarf að ljúka þannig að svörin séu skýr og liggi fyrir en ég held að ég þurfi að ræða það við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson við betra tækifæri hvort það sé nákvæmlega Dalvík sem sé miðpunktur alheimsins.