138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

matvæli og fæðuöryggi á Íslandi.

379. mál
[15:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og ráðherra fyrir ágæt svör. Ráðherra velti því upp hvernig best sé að tryggja stöðugt fæðuöryggi eða fæðuöryggi í landinu sem er vitanlega stóra spurningin í fyrirspurn hans. Í sjálfu sér svaraði ráðherra því ágætlega, þ.e. með því að treysta og viðhalda helstu atvinnugreinum okkar í landbúnaði og sjávarútvegi, svo dæmi séu tekin, og eins þá væntanlega í garðyrkju. Því hljótum við að spyrja okkur hvernig við gerum það best.

Ráðherra kom aðeins inn á það hvernig stórfyrirtæki og jafnvel ríki eru að eignast landareignir og lönd, ræktarlönd. Því spyr maður sig hvort það sé sú framtíð sem við viljum búa við að stórfyrirtæki, jafnvel í matvælaframleiðslu líkt og gerist innan landa Evrópusambandsins þar sem stórfyrirtæki þiggja stærstan hluta af styrkjum sem þar eru veittir — hvort það sé hluti af því að tryggja fæðuöryggi og hafa slíka framtíðarsýn.

Ég þakka ráðherra fyrir orð hans. Ég held að hugsunarháttur okkar sé svipaður og að við séum á svipaðri leið með það hvernig eigi að tryggja fæðuöryggi.