138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

matvæli og fæðuöryggi á Íslandi.

379. mál
[15:50]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigurgeiri Sindra Sigurgeirssyni fyrir þessa ágætu fyrirspurn. Eftir að við lentum í þessu bankahruni þá fór maður virkilega að hugsa um fæðuöryggið og því er þetta mjög til umhugsunar einmitt núna. Þá var svo mikið í umræðunni að við gætum kannski ekki greitt fyrir ýmsa vöru, bæði mat, olíu o.s.frv., þetta er því mjög brýn spurning.

Ég gat ekki heyrt betur en hæstv. ráðherra væri eiginlega að segja að það væri engin stefna hérna, það væri ekkert sem hægt er að segja frá, einhver pólitískur grunnur, að hafa góða landbúnaðarstefnu, mjög óljóst svar. Ég vil því elta hæstv. ráðherra svolítið meira. Við erum næstum því búin að upplifa það að lenda í matarskorti. Í ljósi þeirrar stöðu, þarf það þá ekki að vera kvitt og klárt að við þurfum að hafa einhver x kíló af hveiti, x kíló af ávöxtum o.s.frv., að það sé alltaf einhver grunnur til í landinu? Er það óþarfi, virðulegi forseti? Hvað segir hæstv. ráðherra um það?