140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vekur athygli að mál þetta hefur þvælst lengi hjá stjórnarflokkunum og öllum er ljóst, þegar tillagan kemur loks fram, að þar er búið að vera að togast á um virkjunarkosti, hvar þeir eigi að vera og slíkt. Þannig er málið. Þegar stjórnarflokkarnir höfðu tækifæri til þess að láta tillögu verkefnisstjórnar renna óbreytta til þingsins til umfjöllunar, að þingið gæti farið yfir málið, var tekin sú ákvörðun að setja pólitíska stimpilinn á þetta.

Mig langar að spyrja ráðherra hvort ekki hafi komi til greina að leyfa þinginu að gegna hlutverki sínu og fara yfir þær athugasemdir sem væntanlega hafa komið fram, miðað við það sem ráðherra vitnaði hér í.

Það er mjög miður að stjórnarflokkarnir skuli hafa tekið þá ákvörðun að setja pólitísk fingraför (Forseti hringir.) á tillögu verkefnisstjórnarinnar. Það er mjög miður.