144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við í Samfylkingunni erum ánægð með þrepaskipt tekjuskattskerfi einstaklinga. Við erum ánægð með að tekjuskatturinn gegni þannig því tvíhliða hlutverki að afla tekna fyrir ríkissjóð og stuðla að jöfnuði í samfélaginu. Þegar tekjuskattskerfið verður endurskoðað viljum við jafnaðarmenn láta skoða hvort ástæða sé til að auka bilið milli skattþrepa og fjölga þeim og þannig verði hæsta þrepið örugglega hátekjuskattur en ekki millitekjuskattur. Við viljum tryggja að sanngjarnt framlag tekjuhærri hópa og stóreignafólks renni til samfélagsins í gegnum skattkerfið. Í stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar segir um skatta, með leyfi forseta:

„Gerð verður úttekt á skattkerfinu og skattkerfisbreytingum undanfarinna ára og lagðar fram tillögur til úrbóta …“

Í því sambandi er talað um að einfalda skuli skattkerfið og minnka tekjutengingar. Við eigum því væntanlega von á tillögum um breytingar fyrr en seinna enda er kjörtímabilið næstum því hálfnað.

Ég vil því spyrja formann efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Frosta Sigurjónsson, hvort hann sé sammála því að víkja skuli frá þrepaskiptu tekjuskattskerfi. Ef svo er, telur hann að tekjuskattskerfi með einu þrepi sé réttlátara en það þrepaskipta? Ef breyting verður gerð á skattkerfinu í þá veru hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að brúa megi tekjutap ríkissjóðs vegna þeirra breytinga eða telur hv. þingmaður að hækkun tekjuskatts sem þeir tekjulægri greiði og lækkun tekjuskatts þeirra sem hæstu tekjurnar hafi muni skila sömu tekjum í ríkissjóð og þrepaskipt skattkerfi?