144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi umræður um skýrslur á Alþingi. Ég held að gera megi meira af því að ræða hér skýrslur í stórum málum og þróunarsamvinna er svo sannarlega eitt af þeim. Stjórnvöld hafa leitast við að halda þverpólitískri sátt um þróunarsamvinnu og það hefur tekist nokkurn veginn, að mér skilst.

Í greinargerð með frumvarpinu sem við ræðum er á bls. 11 einmitt talað um mikilvægi þverpólitískrar sáttar um málaflokkinn og að víðtækt samráð sé haft við aðra hagsmunaaðila. Talað er um að safna saman viðhorfum og sætta þau og eins framkvæmdir sem heyra undir málaflokkinn.

„Vegna sérstöðu þessa málaflokks er í skýrslunni hins vegar undirstrikað mikilvægi þess að þingmenn hafi beina aðkomu að eftirliti með þróunarsamvinnu“, segir í greinargerð með 3. gr. frumvarpsins sem fjallar einmitt um nefndina þar sem gert er ráð fyrir að fimm fulltrúar úr hópi alþingismanna skuli kosnir af Alþingi í þróunarsamvinnunefnd. En það eru bara fimm fulltrúar. Mér finnst skipta miklu máli að vita hvernig það er hugsað því að ef þetta á að vera þverpólitískt samráð ætti auðvitað að vera einn frá hverjum þingflokki sem situr á Alþingi. En þarna eru bara fimm fulltrúar og má vera að þarna eigi að vera valið hlutfallslega eftir stærð þingflokka, en hvað vitum við um það? Það þarf að fara yfir það með okkur hvernig þetta þverpólitíska samráð innan þeirrar nefndar, sem ætlunin er að setja á laggirnar, á að vera þegar einhver þingflokkur er skilinn út undan.