151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins árið 2020.

626. mál
[16:13]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir flutning nefndarálits utanríkismálanefndar þar sem nefndin leggur til að ályktanir Vestnorræna ráðsins verði samþykktar. Það þarf nú ekki að fjölyrða mikið meira um efni þeirra. Hv. þingmaður drap lítillega á innihaldið, en ályktanir Vestnorræna ráðsins njóta sérstöðu. Þær eru bornar upp í þingum vestnorrænu ríkjanna og hljóta þar sína umfjöllun og eru samþykktar eftir atvikum. Það er nokkurs virði að talið er. Þetta er hefð sem skapaðist undir lok síðustu aldar, að ályktanir sem gerðar voru í Vestnorræna ráðinu voru lagðar fram sem þingsályktunartillögur á Alþingi. Þessi hefð var síðan tekin upp í þingum nágrannaríkjanna tveggja.

Vestnorræna samstarfið er merkilegt og stendur traustum fótum og Vestnorræna ráðið er eitt af elstu norðurslóðaverkfærunum sem við eigum, formlegum verkfærum. Varðandi það hvort eðlilegt sé að þessar ályktanir fari fyrir þingin þá kunna að vera fyrir því nokkrar ástæður og um það geta verið skiptar skoðanir. Ég þykist þekkja að skiptar skoðanir eru um það. Við höfum raunar ekki svo mikið bakland til að koma á framfæri ályktunum okkar annað en þingin. Það hefur verið viðleitni, eins og hv. þingmaður kom inn á, að hnýta samstarf formlega saman á ráðherragrundvelli, að þeir hittist reglulega, bæði utanríkisráðherrar og ráðherrar sem fara með vestnorræn málefni, en það hefur gengið dálítið treglega. Ein af þeim ályktunum sem við ræðum nú fjallar einmitt um þetta, að þeir hittist með formlegum hætti, taki umræðu um ályktanir Vestnorræna ráðsins, taki afstöðu til þeirra og komi því áleiðis í farveg sem þeim þykir við hæfi að vinna nánar með, og upplýsi okkur svo um þessi málefni.

Auðvitað er þetta allt saman gert til að beina sjónum ríkisstjórnarinnar og landsstjórnanna að samþykktum ráðsins, að leggja þær fyrir þingin. Þetta er gert með öðrum hætti í Norðurlandaráði þar sem samþykktir eða ályktanir þess fara ekki fyrir þing þjóðanna, enda er bakland og stuðningsnet allt annað í kringum Norðurlandaráð. Raunar má segja að árið 2003 undirritaði Vestnorræna ráðið samstarfssamning við ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands sem leiðir af sér að ríkisstjórnirnar gefa ráðinu árlega skýrslu um stöðu mála varðandi ályktanir ráðsins. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom inn á það í sinni ræðu. Það er gagnlegt. Verið er að reyna að skjóta loku fyrir að þessar ályktanir gleymist og falli í gleymskunnar dá.

Herra forseti. Síðustu ár hafa ályktanir Vestnorræna ráðsins verið lagðar fram sem þingsályktunartillögur á Alþingi hver í sínu lagi. En í ár er sú nýbreytni tekin upp, dálítið stórvirk og í anda viðskiptahátta stórmarkaða nútímans, að fara með þrjár tillögur í eina. Þar er ríkisstjórnin hvött til að vinna að framgangi þriggja ályktana sem samþykktar voru á ársfundinum núna í haust. Það er ekki í fyrsta skipti sem þetta er gert en hefur þó ekki verið gert oft, síðast árið 2000. Þingleg meðferð við ályktanir Vestnorræna ráðsins er með sama hætti hjá nágrönnum okkar í Færeyjum og svo er nánari umfjöllun um hverja ályktun Vestnorræna ráðsins fyrir sig. Hana er að finna í greinargerð ályktunarinnar.

Herra forseti. Þetta þríeina þingskjal hefur nú fengið þóknanlega umfjöllun utanríkismálanefndar og fyrir hönd Vestnorræna ráðinu þakka ég fyrir jákvæða umfjöllun nefndarinnar. Ég hef væntingar um að ályktanir Vestnorræna ráðsins fái að njóta mikils stuðnings hér við atkvæðagreiðslu síðar.