151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins árið 2020.

626. mál
[16:19]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum þetta árlega mál, ályktanir sem Vestnorræna ráðið samþykkti á ársfundi þess. Í þetta skipti eru þær þrjár, þrír punktar sem skipta máli. Í fyrsta lagi er í sjálfu sér mjög gott að efla samstarfið á stigi ráðherra, ríkisstjórnarstigi, að ráðherrar vestnorræna samstarfsins hittist á hverju ári og ræði bæði hefðbundnu stefnumálin eða samstarfsmálin, atvinnuvegina og menninguna o.s.frv., en það eru líka ný eða nýleg mál sem skipta máli. Þá á ég auðvitað við loftslagsmálin sem eru alltumlykjandi. Ég er líka að ræða málefni sem varða samgöngur. Siglingar á þessu svæði, flutningar og annað eru lykilatriði, en ekki bara það heldur líka flug. Öll þessi þrjú lönd eru mjög háð flugi og það er af nógu að taka þar, að ræða t.d. orkuskipti í flugi. Svo er það sjálfbærni fiskveiða. Ég get eflaust fært einhver rök fyrir því að fiskveiðar þessara þriggja þjóða séu ekki endilega sjálfbærar á öllum sviðum og að nógu að vinna þar. Svo vil ég nefna ástand hafsins, sérstaklega súrnun hafsins sem er áhyggjuefni og þarf að fylgjast vandlega með. Það er hægt að vinna að þessu í gegnum samstarf þessara þriggja ráðherra og þinganna og ríkisstjórnanna með góðum skikk. Þess vegna styð ég þennan punkt eindregið.

Í öðru lagi er verið að fara fram á að utanríkisráðherrar ræði mál norðurslóða í tengslum við vestnorræna svæðið. Komið var inn á það áðan að Færeyjar, samkvæmt skilgreiningu á norðurslóðum, falli ekki undir norðurslóðir. Þingmenn frá færeyska þinginu sem eru kosnir í Færeyjum, og þingmenn á Grænlandi, og sitja á þinginu í Kaupmannahöfn, koma þá ekki nálægt Norðurskautsráðinu sjálfu, og þar með ekki heldur ráðherrar sem þar gætu átt sæti. Þeir taka hins vegar þátt í þingmannaráðstefnu norðurslóða. Það eru sömu þingmenn og þarna kæmu til greina sem aðilar sem myndu skipta sér meira af norðurslóðastarfinu beinlínis á ýmis konar vettvangi. Ef það tekst að koma betri skikk á samstarf þessara þriggja ráðherra sem fara með norðurslóðamálin væri það mjög gott.

Það er líka af nógu að taka þar. Ég var búinn að nefna samgöngur, það eru jú að opnast nýjar siglingaleiðir og þær munu skipta öll þessi lönd máli. Fiskveiðarnar var ég búinn að nefna sérstaklega og svo er önnur auðlindanýting sem snýst um jarðefni, í raun námugröft, þ.e. ýmist jarðefni eins og málma eða annað slíkt eða olíu og gas. Mér er mikið í mun að minna á það að námugröftur hvers kyns er ekki sjálfbær auðlindanýting. Hann getur verið nauðsynlegur og er nauðsynlegur. Við getum bara tekið okkur sjálf sem dæmi og horft til öflunar byggingarefnis á Íslandi, við gröfum í sundur hálfu og heilu fjöllin hér og verðum að gera það til að eiga efni í vegi og húsgrunna o.s.frv. Þetta eru auðvitað ekki sjálfbærar nytjar og það sama gildir um annars konar jarðefni og að sjálfsögðu olíu og gas sem eru óendurnýjanlegar auðlindir. Það er mjög mikilvægt að minna á þetta. Lokaatriðið sem ég vil minnast á varðandi norðurslóðasamstarfið er sú aukna spenna sem við finnum aðeins fyrir á Norður-Atlantshafssvæðinu og ætti auðvitað að vera umtalsefni þessara þriggja ráðherra, vegna þess að það varðar mjög þessi þrjú lönd, Færeyjar, Ísland og Grænland, sem mynda hluta af hinu svokallaða GIUK-hliði, þ.e. sem sagt hliðinu að nyrðri hluta hafsins sem nær frá Bretlandseyjum til Grænlands. Þau mál skipta okkur miklu máli og samvinna, samtal og samstarf hvers konar er lykillinn að því að farsællega takist til í þessum efnum. Þannig að ég styð þennan punkt enn fremur.

Síðan þarf ekki að fara mörgum orðum um aðild Færeyja að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Það hefur jú Covid kennt okkur og ýmiss konar forvarnastarfsemi að það er bráðnauðsynlegt hvað varðar alla lýðheilsu að þjóðir á borð við Grænlendinga og Færeyinga og Íslendinga fari með hið alþjóðlega samstarf í heilbrigðismálum sjálf. Ég tel því þennan punkt líka mjög stuðningsverðan. Ég hef þá afgreitt alla þrjá með einu stóri jái. — Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.