151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.

570. mál
[16:29]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég geri hér grein fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Með því frumvarpi sem hér um ræðir er lagt til að ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2017/2399, um breytingu á tilskipun 2014/59, að því er varðar rétthæð ótryggðra skuldagerninga í réttindaröð við ógjaldfærnismeðferð verði innleidd í íslenskan rétt.

Helsta efnisbreytingin sem lögð er til í frumvarpinu er sú að í lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja verði kveðið á um forgangsröð krafna við skila- og slitameðferð fyrirtækja sem falla undir gildissvið laganna.

Ein efnisleg breytingartillaga er gerð. Í 25. gr. um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja er kveðið á um skyldu lánastofnana til að halda skrá yfir fjárhagslega samninga sem viðkomandi lánastofnun er aðili að. Þá kveður greinin á um heimild skilavaldsins til að ákveða að önnur fyrirtæki og einingar sem falla undir gildissvið laganna haldi slíka skrá. Nefndinni barst hins vegar ábending frá ráðuneytinu þess efnis að framangreind tilhögun væri umfram þær skyldur sem kveðið er á um í tilskipuninni. Þá þætti skyldan ástæðulaus með aukinni þekkingu á regluverkinu enda geti lánastofnanir með skjótum hætti komið slíkri skrá á fót ef nauðsyn krefur. Eru því lagðar til breytingar á 25. gr. laganna þess efnis að fortakslaus skylda lánastofnana til að halda skrá samkvæmt ákvæðinu falli brott og skilavaldinu þess í stað veitt heimild til þess að krefjast þess að slíkri skrá sé komið á fót, ef það metur slíkt nauðsynlegt.

Aðrar breytingar sem nefndin leggur til eru ekki efnislegar heldur tæknilegs eðlis.

Hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hins vegar allir nefndarmenn, sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Smári McCarthy og Þórarinn Ingi Pétursson.