Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

um fundarstjórn.

[14:54]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi vil ég nú segja: Hverjum dettur í hug að Útlendingastofnun vinni með þeim hætti að hafa einhverjar skoðanir á því hverjum Alþingi kann að veita ríkisborgararétt og afgreiði ekki umsóknir eða veiti ekki umsagnir um umsóknir sem stofnunin eða forsvarsmenn hennar hafa ekki velþóknun á? Ég vísa þessu til föðurhúsanna. (ArnG: … segir þetta sjálf.)

Þegar hv. þingmaður segir hér að ráðherrann sé að tala um að velja úr umsækjendur þá er ég að tala um það samstarf sem gæti átt sér stað á milli nefndarinnar og Útlendingastofnunar um að fara yfir umsóknirnar áður en djúpa skoðunin fer fram, vegna þess að það liggur í augum uppi að margar þessara umsókna munu aldrei hljóta náð fyrir augum þingsins. Fólk sem er í eðlilegu ferli er að láta reyna á kerfið. En það er fullt af einstaklingum þarna sem er með(Forseti hringir.) umsóknir sem eiga erindi til þingsins og ég er að kalla eftir því að það samstarf geti átt sér stað til að létta þessa vinnu. (Forseti hringir.) Ég bendi þá aftur á það hlutfall að umsóknir til Alþingis síðast voru hátt í 170, ef ég man rétt, og ég held að Alþingi hafi veitt (Forseti hringir.) 19 ríkisborgararétti út á það. Það voru sem sagt vel á annað hundrað umsóknir þá, sem var lögð full vinna í, sem ekki hlutu náð fyrir augum þingsins.