Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[17:48]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Þetta er náttúrlega alveg gríðarlega stór og víðfeðmur málaflokkur og ég tek heils hugar undir það sem þingmaðurinn segir um þörfina á að líta á stóru myndina og horfa til lengri tíma. Það er bara svo oft erfitt að hafa pólitískt úthald þegar um er að ræða aðkallandi bráðaverkefni til skemmri tíma. Þá kemur alltaf þessi togstreita. Mér þykir t.d. áhugavert að sjá í skýrslunni að hvergi er talað um aðkomu VIRK. Það er reyndar útskýrt að litið er á það sem verkefni sem heyrir undir heilbrigðisráðuneytið. Staðreyndin er sú að sjúkrasjóður VIRK er stærsti einstaki sjóðurinn sem greiðir fyrir sálfræðiþjónustu þeirra sem ekki eru inni í kerfinu. Með því að tala um þetta út frá þessari skýrslu en undanskilja VIRK þá erum við strax komin í þessa hólfaskiptingu. Þar er t.d. verið að vinna alveg gríðarlega mikla vinnu í því að sinna einstaklingum sem þurfa aðstoð við vægu þunglyndi eða minni háttar, svo að ég tali á skala fagfólks, geðröskunum sem vaxa og verða illviðráðanlegri ef ekkert er að gert. En áherslan er á þessi stóru mál. Ég vona að hv. þingmaður sé sammála mér í því að þegar við förum að ræða stefnuna til næstu átta ára, tíminn líður, þá tökum við þetta allt saman inn í en höldum ekki áfram þessari hólfaskiptingu. Við munum ekki ná þeim árangri sem ég held við séum öll sammála um að við viljum ná og þurfum að ná nema fella þetta allt undir og ná að tala saman um hlutina eins og þeir eru í raun og veru.