Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[19:02]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þetta sé mikilvæg spurning sem hv. þingmaður veltir hér upp um það hvort verið sé að hliðra þjónustunni. Ég hef hreinlega ekki þekkingu til að vita hvort svo er. En miðað við það sem nú liggur fyrir held ég að enn frekar þurfi að auka aðgengi að sálfræðiþjónustu innan heilsugæslunnar. Það hefur sýnt sig að eftirspurnin er meiri og ekki hefur náðst að svara þörfinni. Ég treysti mér ekki til að segja hvort það er hliðrun eða hvort það er aukning í annars stigs þjónustunni vegna þess að komið er nýtt úrræði sem geðheilsuteymin eru. En ég held að það sé mjög verðugt atriði til að fylgjast með. Það er mikilvægt að fólk fái þjónustu á viðeigandi stað. Við tölum oft um mikilvægi aðgengis að sálfræðiþjónustu, sem ég er sammála og ég tek undir. Á það hefur einnig verið bent að auka þyrfti aðgengi að ýmsum öðrum stéttum, til að mynda innan heilsugæslunnar, og að það gæti hjálpað til við að fólk fái aðstoð á þessu fyrsta stigi í þjónustunni. Það er eiginlega besta svarið sem ég get gefið hv. þingmanni hér, en ég tel hins vegar að það skipti máli að fylgjast með þessu atriði. Það skiptir máli að fá þjónustuna á réttum stað í kerfinu.