Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[21:05]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu, stefnu, skipulag, kostnað og árangur, og álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eftir umfjöllun nefndarinnar um skýrsluna. Álit nefndarinnar liggur fyrir sem 723. þingmál. Velferðarnefnd fékk einnig kynningu á skýrslunni frá Ríkisendurskoðun á fundi nefndarinnar þann 30. maí síðastliðinn og ég vil hér sem formaður velferðarnefndar leggja áherslu á að nefndin nýti sér skýrsluna við umfjöllun um öll mál sem snerta efni hennar, hvort sem umfjöllun nefndarinnar tengist lagafrumvörpum, þingsályktunartillögum eða öðrum viðfangsefnum þar. Þannig sé ég fyrir mér að skýrslan geti orðið nokkurs konar leiðarvísir og viðmið í störfum velferðarnefndar að geðheilbrigðismálum, a.m.k. á þessu kjörtímabili. Þar er nærtækast að nefna stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 sem nú er til umfjöllunar í velferðarnefnd og eðlilegt að spegla þá tillögu í skýrslunni og einkum og sér í lagi að meta þá stefnu eins og hún er lögð fram í ljósi ábendinganna sjö sem Ríkisendurskoðun leggur áherslu á. Yfir þær sjö ábendingar hefur nú þegar verið farið ítrekað hér í umræðunni.

Skýrslan varpar ljósi á ýmsa þætti sem þurfa úrlausn og hún er dýrmætt innlegg í þróun heilbrigðisþjónustu þar sem miklar breytingar eiga sér stað tengdar þjónustu í geðheilbrigðismálum, bæði hér innan lands og alþjóðlega. Ég lít að vissu leyti þannig á að skýrslan sé í rauninni innlegg í þær breytingar sem hafa verið að eiga sér stað, eru að eiga sér stað og verða að eiga sér stað á næstunni.

Virðulegi forseti. Þetta er kannski það sem ég kom hér fyrst og fremst til að segja, hvernig velferðarnefnd getur nýtt sér þessa skýrslu og að ég leggi áherslu á að hún nýti sér skýrsluna. En mig langar að koma inn á ýmislegt fleira eftir því sem tími gefst til hér. Kannski fyrst það að það hafa orðið miklar breytingar á geðheilbrigðisþjónustu á skömmum tíma og jafnframt á samspili hennar við aðra heilbrigðisþjónustu. Margt er á réttri leið, margt þarfnast frekari úrbóta en eftir því sem verður framþróun þá birtast líka nýjar áskoranir. Ég sé það t.d. sem mjög jákvætt, og það er dregið fram í skýrslunni sem mjög jákvætt, að þjónusta á fyrsta stigi hefur verið aukin þar sem þjónusta er veitt á heilsugæslunni nær þjónustuþegum. En á sama tíma hafa fleiri störf við fyrsta stigs þjónustu laðað til sín fólk sem áður vann við þriðja stigs þjónustu og þar með hefur fólk með sérþekkingu færst frá þjónustu á þriðja stigi yfir á þjónustu á fyrsta stigi. Það skapar mönnunarvanda þar. Hins vegar er líka bent á að það hafi hugsanlega dregið eitthvað úr þjónustuþörfinni á öðru og þriðja stigi við það að veita betri þjónustu á fyrsta stigi og auðvitað er það alltaf markmiðið. Þá er líka dregið fram að fjarþjónusta hefur aukist og hana má eflaust nýta betur og markvissar. Eins þegar þjónustan er veitt strax á fyrsta stigi hjá heilsugæslunni eru aukin tækifæri til að taka heildstætt utan um bæði geðheilsu og líkamlega heilsu fólks sem leitar sér aðstoðar heilbrigðiskerfisins en enn skortir á markvisst samspil við félagslega kerfið þó að þar eigi sér líka stað miklar framfarir með aukinni samvinnu milli kerfa og, eins og komið hefur verið ítrekað inn á hér, er það áherslan með innleiðingu farsældarlaganna og þar með breytingu á þjónustu við börn.

Eitt sem komið hefur ítrekað fram hjá velferðarnefnd nú er að það er mjög mikilvægt að fólk sem þarf að bíða eftir þjónustu á öðru eða kannski frekar þriðja stigi fái þjónustu á fyrsta stigi eða öðru stigi meðan beðið er eftir sérhæfingunni. Eins og er virðast alla vega stundum vera ákveðnar girðingar þvert fyrir það.

Þá er eitt sem okkur hættir stundum til að gleyma í umræðunni um geðheilbrigðisþjónustu, að það er mikilvægt að það sé horft til mismunandi þarfa þeirra sem glíma við langtímaþörf fyrir geðheilbrigðisþjónustu og þeirra sem þurfa tímabundinn stuðning við sitt geðheilbrigði einhvern tímann á lífsleiðinni, oft þá í skamman tíma. En oft erum við að tala um annaðhvort en ekki bæði og ekki ólíkar leiðir. En eins og líka hefur komið hér ítrekað fram þarf markvissar aðgerðir til að fjölga námsplássum við tilfærslu fólks milli þjónustustiga, eins og ég rakti, til að fjölga menntuðu fagfólki í ýmsu stéttum. Þess vegna er það mikið gleðiefni að frá og með næsta hausti verður meistaranám í geðhjúkrun í boði við Háskólann á Akureyri. Það verkefni er sameiginleg gráða frá Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri þó að Háskólinn á Akureyri haldi utan um námið. Þar verður lögð áhersla á klíníska þekkingu og færni nemenda, fagmennsku og rannsóknafærni. Þetta er afskaplega mikilvægt skref til að bæta mönnun á öllum stigum og skref í átt að settum markmiðum í geðheilbrigðismálum. Það eru nú þegar fleiri skráðir í námið en komast að í fyrstu atrennu þannig að við getum vænst þess að geðhjúkrunarfræðingum fjölgi.

Það er mikilvægt, eins og nefnt er í skýrslunni, að það eru mörg verkefni í gangi, framfaraverkefni, það hafa verið gerðar margar úttektir á síðustu árum og aðgerðaáætlanir til úrbóta, en það er mikilvægt að horfa á heildarmyndina alla tíð samhliða því að einstök viðfangsefni eru leyst. Það sem kom mér kannski mest á óvart í skýrslunni er þessi skortur á upplýsingum og skipulegri söfnun upplýsinga, meðferð gagna og skýrri framsetningu á þeim, því að auðvitað er grundvöllurinn að við eigum kort af því sem er að gerast til að við vitum hvert við eigum að fara. Þá skiptir auðvitað máli, eins og ég hef komið inn á, stefnumótunin en ekki síður markvissar aðgerðaáætlanir í framhaldinu sem ég álít að sé mikilvægt að við tökum til umfjöllunar hér í þinginu og það komist af stað þessi hringur stefnumótunar, aðgerða og mats á því hvernig til tekst og svo betrumbætur.

Mig langaði bara að nefna eitt af því sem er sett fram sem áhersla í stefnunni sem nú er til umfjöllunar í velferðarnefnd. Það er áhersla á notendasamráð og geðráð þar sem stjórnvöld, fagfólk, notendur og aðstandendur fjalli um málaflokkinn og komi að mótun stefnu í honum og stöðugum umbótum. Það er auðvitað bara afskaplega mikilvægt mál.

Svo má ég til með að koma aðeins inn á virkniúrræði af því að hv. þingmenn Þórunn Sveinbjarnardóttir og Hanna Katrín Friðriksson ræddu þau hér fyrr og ræddu sérstaklega um VIRK. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við náum líka utan um upplýsingar um ýmiss konar virkniúrræði sem eru rekin um allt land, oft í samstarfi félagasamtaka, sveitarfélaga og jafnvel með aðkomu ríkisins. Þetta eru úrræði sem nýtast bæði til skamms tíma og öðrum til lengri tíma og skipta miklu máli.

En að lokum vil ég taka undir með hv. formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, Þórunni Sveinbjarnardóttur, það þarf pólitískt úthald og þolinmæði til að fylgja umbótum eins og þeim sem nú eiga sér stað í geðheilbrigðismálum. Verkefnin verða ekki leyst með einni skýrslu eða stuttri umræðu. Þetta eru langtímaverkefni hvort sem við erum að hugsa um að byggja upp mannauð, tryggja dreifða þjónustu um allt samfélagið eða samstarf þvert á kerfi.