Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[21:15]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Mig langar að spyrja hana hvort hún deili ekki með mér áhyggjum vegna þess að ég þekki af fyrri reynslu að hérna áður fyrr var fólk sem lenti í erfiðleikum í skólakerfinu, var örugglega með ADHD eða eitthvað annað en fékk ekki greiningu. Þetta voru krakkar sem voru kallaðar bara tossar, lentu í einelti og alls konar erfiðleikum og ég þekki til þess að þessir einstaklingar hafa síðan lent í örorkukerfinu. Núna erum við með þúsund börn í þessari aðstöðu og erum með börn sem kannski þurfa að bíða í þrjú ár og þau eru að byrja sína skólagöngu. Þetta getur raskað öllu þeirra námi og þarna gætum við verið að búa til færiband með fjölda barna inn í örorkukerfi framtíðarinnar. Síðan væri komið fram með þá lausn að búa til eitthvert starfsgetumat og reyna að endurhæfa. Við vitum að það að hjálpa þessum einstaklingum í dag kostar kannski tugi þúsunda, jafnvel hundruð þúsunda. En við erum að tala um milljónir fyrir hvern einstakling sem lendir inni í örorkukerfinu. Nú sé ég ekki hvernig ríkisstjórnin ætlar að leysa þetta mál. Það er búið að vera að ræða þessa biðlista síðan ég kom inn á þing. Ég held að í upphafi, þegar ég ræddi fyrst biðlistana t.d. í ADHD-kerfinu, hafi verið 700 börn á biðlista en nú eru þau um þúsund. Ég spyr hv. þingmann hvort hún sjái einhverja lausn í þessu máli þannig að hægt sé að leysa það og þá aðallega upp á það að við hættum ekki á að þessi börn sem eru á biðlistum lendi inni í örorkukerfinu.