Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[21:34]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni seinna andsvar. Þetta með námsplássin snýst náttúrlega að einhverju leyti um plássið í háskólanum en fyrst og fremst um plássið inni á spítölunum. Þar er fjármagn auðvitað takmarkandi þáttur en líka hversu mörgum er verið að sinna á hverju sviði. En fyrst og fremst þurfum við að halda jafnt og þétt áfram. Og svo það sé alveg skýrt með námið sem er verið að bjóða upp á í haust þá er haldið utan um það af Háskólanum á Akureyri en það er ekkert bundið við Akureyri, það er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og heilbrigðiskerfisins við Háskólann á Akureyri.

Það sem ég vildi leggja áherslu á líka er að fólk með t.d. hjúkrunarmenntun og kennaramenntun er einfaldlega eftirsóttur starfskraftur víða í samfélaginu (Forseti hringir.) og mér finnst við stundum gera of mikið úr því að þessi menntun nýtist ekki samfélaginu þó að hún sé notuð annars staðar en akkúrat í menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu.