Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[21:36]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að fagna mjög þeirri umræðu sem á sér stað hér í dag og fagna sömuleiðis því að Ríkisendurskoðun hafi unnið þessa faglegu skýrslu, stjórnsýsluúttekt á geðheilbrigðismálum, sem við fjöllum um í dag af því að við fáum að sjá svart á hvítu í þessari skýrslu hversu illa við höfum ræktað þessa mikilvægu þjónustu sem hefur orðið að olnbogabarni í íslensku heilbrigðiskerfi einhverra hluta vegna. Ég veit ekki af hverju þessi sjúklingahópur og þessi úrræði mæta svona miklum afgangi í íslensku heilbrigðiskerfi og svona litlum skilningi að því er virðist hjá stjórnvöldum er varðar umfang verkefnisins, fjárþörf og þörf á skipulagðri framtíðarsýn. Jú, skýrsla er góð, þessi stjórnsýsluúttekt er gríðarlega mikilvæg, en ég get ekki sleppt því að nefna hversu mikilvægt það er að það fylgi svona stóru verkefni, eins og við sjáum núna frá Ríkisendurskoðun, einhver eftirfylgd, að það sé farið í alvöru í að skera upp þetta kerfi. Ég ætla ekki að leyfa mér að segja að velta við hverjum steini af því að við þurfum eitthvað allt annað en það, við þurfum að setja hjartað í þessa vinnu af því að ég held að þrátt fyrir allt þá sé það það sem við viljum.

Til að byrja með vil ég árétta að við hættum að setja aðaláherslu okkar á það að við séum að eyða svo miklu í þennan málaflokk og förum að líta frekar á að við séum að fjárfesta í fólki, fjárfesta í mannauð þegar við setjum nauðsynlegt fjármagn til þjónustu við borgara þessa lands sem glíma við geðrænar áskoranir á hvaða stigi lífsins sem er. Það er gríðarleg sóun að gera hlutina illa. Það er gríðarleg sóun í því að vannæra heilbrigðiskerfið af fjármagni, mannauði og framtíðarsýn. En því miður er það það sem við erum að horfa á daglega þegar kemur að geðheilbrigðiskerfinu og það staðfestir þessi stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar svart á hvítu.

Við munum það að langmesta aukningin hjá fólki á örorku er til komin vegna fólks með geðrænar áskoranir. Þar blasir aukningin við. Áður voru það einstaklingar með stoðkerfisvanda, nú eru það einstaklingar með geðrænar áskoranir. Og hvað erum við að gera í því? Hvar er þríeykið? Það er ekkert þríeyki, frú forseti. Hvað kostar það okkur að festa fólk inni í kerfi þar sem það er komið inn á örorku og að fólk megi eiginlega ekki láta reyna á neina virkni? Það er ekki mjög gáfuleg lausn á þessum viðfangsefnum. Í hverri viku, frú forseti, fáum við fregnir af óboðlegu ástandi, nú síðast í dag þegar við lesum að nauðungarvistaðir einstaklingar á geðdeild Landspítala við Hringbraut, Klepp og á Sjúkrahúsinu á Akureyri fái ekki viðunandi útivist. Við fengum fréttir í dag um að nauðungarvistaðir einstaklingar á geðdeild Landspítala við Hringbraut fái ekki að fara neitt út í 21 dag, fyrstu 21 dag dvalar sinnar við Hringbraut. Á hinum stöðunum, við Klepp, Hringbraut og á Akureyri er húsakostur óboðlegur og það hefur verið fjallað um það árum saman. Þess vegna höfum við í Samfylkingunni ítrekað lagt fram tillögur á Alþingi um uppbyggingu húsnæðis geðdeilda þannig að tryggja megi a.m.k. bætta aðstöðu fyrir þessi geðsvið. Við höfum lagt til að skipaður verði starfshópur fagfólks og hagsmunaaðila, þar með talið notenda þjónustunnar, sem fari í athugun og þarfagreiningu til að það sé hægt að ráðast í þetta verkefni. Það er ótrúlegt að segja frá því hér að hin nýja uppbygging sem á sér stað á Landspítala gerir ekki ráð fyrir geðdeild. Hún var skilin eftir. Því miður hefur þessi tillaga okkar ekki hlotið brautargengi en við munum að sjálfsögðu halda áfram að leggja hana til.

En aftur að skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þar er bent á mikilvægi þess að það sé til einhver tölfræði yfir þá þjónustu sem verið er að veita, yfirlit um ýmiss konar inngrip gagnvart einstaklingum, svo sem lyfjaþvinganir, nauðungarvistun, lyfjanotkun og fleira svo hægt sé að meta árangur og líka yfirlit yfir það þegar fólk kemur inn í sjálfsvígshættu og hvað verður um það fólk, og við höfum fjallað um það líka hér í vetur, hvernig er hægt að meta árangur af læknismeðferð og annars konar meðferð og hvernig er hægt að hafa eftirlit með stofnunum sem meðhöndla fólk með geðrænar áskoranir. Undir þessi orð Ríkisendurskoðunar taka landssamtökin Geðhjálp í viðbrögðum sínum við skýrslu Ríkisendurskoðunar sem send voru okkur öllum á Alþingi.

Eitt af því sem bent er á í skýrslu Ríkisendurskoðunar er að fjármagn til geðheilbrigðismála nemur tæplega 5% af heildarframlögum ríkis til heilbrigðismála. Umfang málaflokksins er hins vegar 30% af heildinni. Vissulega er ekki notaður jafn dýr tækjabúnaður við meðferð og greiningar í þessum málaflokki en það er samt sem áður æpandi misræmi sem sýnir okkur í raun og veru hversu vanræktur þessi málaflokkur er í heildarsamhengi heilbrigðisþjónustu.

Af því að ég nefndi lyfjaþvinganir og nauðung hér áðan þá get ég ekki látið hjá líða að nefna það mál sem hæstv. heilbrigðisráðherra blessunarlega dró til baka á þessu þingi vegna algjörs samráðsleysis við sjúklinga. Það mál varðaði réttindi sjúklinga og þær heimildir að beita sjúklinga þvingun og nauðung. Í þeim tilvikum er t.d. ekki til neinn gagnagrunnur um hversu oft er verið að beita sjúklinga þvingun eða nauðung. Það er ekki til neitt um það hversu oft þetta er gert. Hvernig stendur á því að embætti landlæknis heldur ekki utan um svona inngrip í líf fólks? Það er ekki neitt. Það eru heldur ekki til nein úrræði fyrir einstaklinga sem óska eftir því að fá að njóta geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi án lyfjainngrips en þó undir vökulu auga heilbrigðisstarfsfólks. Slíkt úrræði þekkist víða um heim og svo sannarlega á Norðurlöndunum öllum. Ef einstaklingur sem er að fást við geðrænar áskoranir telur sig ráða við að ná bata á veikindum sínum án lyfjainngrips en vill fá að njóta þess að vera í vernduðu umhverfi og undir umsjá heilbrigðisstarfsfólks, þá er það bara ekki hægt á Íslandi. Það virðist vera svo mikil ofurtrú á því að lyf lækni og að sjúklingurinn geti ekki sjálfur metið og gert tilraun og reynt allt sem hann getur til þess að komast í gegnum sín veikindi án lyfja.

Við verðum, frú forseti, af því að það er svo lítill tími eftir, því miður, að færa þjónustu við fólk með geðrænar áskoranir í nútímalegra horf. Við verðum að breyta húsakostinum því að það er fullkomlega óboðlegt að fólk sem er innilokað til lengri eða skemmri tíma geti ekki notið þess að fara út í náttúruna að njóta útiveru og hreyfingar heldur er það vegna ömurlegs húsakostar lokað inni dögum og vikum saman. Við verðum að hlusta miklu, miklu meira á notendur þjónustunnar. Við verðum að hlusta meira á fjölskyldur þeirra sem glíma við geðrænar áskoranir. Við verðum að taka utan um þessa hópa. Við þurfum að skipa þríeyki til að bregðast við þegar við fáum himinháar tölur sjálfsvíga á hverju ári. Við verðum að opna augun fyrir því að þetta er sjúkdómur nútímans sem verður að bregðast við með nútímalegum lausnum en ekki einhverjum lausnum fortíðarinnar.