Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[22:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég er að skoða fjármálaáætlun þessa dagana því að fjárlaganefnd er náttúrlega að afgreiða það mál út úr nefnd en er samt að bíða eftir einhverjum breytingum sem von er á hvað úr hverju, á næstu dögum er sagt, með niðurskurði miðað við hvernig það hljómar. Ég átta mig ekki á því hvernig er hægt að fylgja því eftir. En það er ekkert rosalega mikið í fjármálaáætlun eins og hún er núna um geðheilbrigðismál. Það er talað um 100 millj. kr. aukningu á ári næstu fjögur ár sem endar þá í 400 milljónum aukalega. Við erum að glíma við áætlaðan kostnað geðheilbrigðisþjónustu á heilsugæslunni upp á 2,4 milljarða og væntanlega verður það uppfært miðað við verðbólgu o.s.frv. Þetta er 4% aukning. Ég satt að segja veit ekki hvort það dugar miðað við umfang vandans sem við erum að glíma við því það er líka náttúrlega mönnunarvandi eins og hefur komið hérna fram og það er líka fjárhagsvandi. Það er hvort tveggja. (Forseti hringir.) En það er ekkert í fjármálaáætluninni sem útskýrir fyrir mér hvernig 400 milljónir (Forseti hringir.) leysa vandann, hversu langt þær ná í að leysa vandann, hvernig við glímum við mönnunarvandann og hvort þetta fé fer inn í menntakerfið til að hjálpa til við það.