Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[22:55]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir að tæpa á þessu. Svo ég útskýri aðeins betur það sem ég var með í gangi þegar tíminn rann út hjá mér áðan: Það er í sjálfu sér að mínu mati ekkert flókið að fara í það skref að samþykkja þessi lög og þessi áform um afglæpavæðingu. Það sem ég átti við er að ef menn ætluðu að stíga stærra skref og fara í einhvers konar lögleiðingu á fíkniefnum þá er samfélagið ekki búið að taka nema eitt, tvö hænuskref í mjög langri vegferð, þ.e. hvernig við myndum gera það í framkvæmd og fara að því. Hver er það sem má selja fíkniefni? Hver má framleiða þau? Er það ríkið eða einkaaðilar? Það eru alls konar svona spurningar sem við erum ekki einu sinni farin að velta fyrir okkur. Afglæpavæðing er í sjálfu sér bara fyrsta skrefið og svo verðum við að sjá til með framhaldið. En mér finnst ofsalega gott að þessi umræða eigi sér stað hérna þegar við erum að tala um geðheilbrigðismálin vegna þess að þetta er alveg ótrúlega nátengt. Við erum auðvitað að tala um þau sem lenda í vanda með líf sitt, annaðhvort út af áfengi eða út af fíkniefnum, í samhengi við ræðuna sem ég var að nefna áðan. Það eru auðvitað ekkert allir sem fara þangað, það er alveg hárrétt. En þetta er oft alveg rosalega samtvinnað vegna þess að fólk sem á við geðrænan vanda að stríða leitar stundum í einhvers konar frið í gegnum vímuefni eða áfengi og þeir sem hafa verið að misnota áfengi og vímuefni þurfa oft á aðstoð að halda frá öðrum póstum í geðheilbrigðiskerfinu. Þess vegna fagna ég því að við getum rætt þetta sem part af þessu öllu vegna þess að það er jú bara þannig að alkóhólismi er geðsjúkdómur, krónískur geðsjúkdómur sem hægt er að halda niðri. Þú læknar hann ekki en þú getur haldið honum niðri. En til þess að allur þessi fjöldi geti haldið sjúkdómnum niðri þá þarf heilbrigðiskerfið (Forseti hringir.) að vera gott og öflugt. Höfum í huga að um 6% allra núlifandi Íslendinga hafa farið í meðferð á Vogi árið 2018. Þetta eru engar smá tölur.