Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[22:57]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir frábæra ræðu. Ég held að hann hafi komið inn á mjög athyglisvert atriði í þessari umræðu og það er í sambandi við vímuefni, SÁÁ og það vandamál sem þar er við að eiga. Ríkisendurskoðun vakti sérstaklega athygli á því, og segir orðrétt:

„Ákveðin mismunun er innbyggð í geðheilbrigðiskerfið á Íslandi og ljóst að ekki sitja allir við sama borð. Aðgengi að þjónustu ræðst gjarnan af efnahag, tegund geðvanda og búsetu. Mismunun felst einnig í því að tilteknir hópar lenda á svokölluðu gráu svæði og fá ekki þjónustu við hæfi, m.a. vegna óljósrar ábyrgðar- og kostnaðarskiptingar, skorts á fjármagni, mönnun og úrræðum eða annarra ástæðna.“

Ég held að innan þessa svæðis, með fíkniefni og SÁÁ, séu svört svæði. Eitt af því sem hefur kannski gleymst, eða hvort það hafi verið rætt nógu mikið, bæði í þessari umræðu og annars staðar, eru börn þeirra sem lenda í vímuefna- og áfengisvanda. Mörg börn hafa komið fram og sagt frá þeim gífurlega vanda sem þau glíma við seinna á ævinni eftir að hafa þurft að alast upp á heimili þar sem mikill vímuefnavandi og áfengisvandi hefur verið til staðar. Þau kvarta einmitt sáran undan því að þau séu bara gleymd í kerfinu. Þarna eru börn sem lenda á þessu skuggasvæði og er ekkert verið að sinna. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér í því að þarna er vandamál sem þarf að taka á. Sérstaklega þarf líka að grannskoða og kortleggja hvernig farið er með börn sem alast upp við þær ömurlegu aðstæður sem þarna er um að ræða.