Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 85. fundur,  22. mars 2023.

Orkuöryggi.

[15:41]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þetta mikilvæga málefni sem er þess eðlis að það kallar á athygli okkar og umræðu, ekki síst hér á hv. Alþingi. Hv. þingmaður spyr mjög vítt um stór mál. Það er gott og vel og því meira sem við ræðum þetta hér, því betra, en þó er allra best að við framkvæmum. Staðan er einhvern veginn svona: Eins og hv. þingmaður vísaði til og við vitum erum við Íslendingar í þeirri öfundsverðri stöðu að 85% af okkar orku eru endurnýjanleg, græn getum við sagt. Ef allur heimurinn væri í þeirri stöðu þá værum við ekki að eiga við þessi stóru vandamál og verkefni þegar kemur að loftslagsmálum.

Miðað við bestu mögulegu sviðsmyndir sem við höfum þá er algerlega ljóst að við þurfum að auka mjög á græna orku, enda er það í sjálfu sér ekki mjög flókið að þegar þú tekur út jarðefnaeldsneyti sem nemur 300 milljörðum kr., eins og hv. þingmaður vísar til, þá þarftu græna orku í staðinn. Hv. þingmaður vísaði til þess að í grænbókinni var gert ráð fyrir því að það þyrfti jafnvel að tvöfalda orkuframleiðslu til að ná því, en auðvitað vita allir þegar við erum að skoða þessi mál að eitthvað vinnur vonandi með okkur í þessu. Þetta er stórt verkefni en þó pínulítið verkefni í samanburði við það sem heimurinn þarf að gera, því að það er ætlað að heimurinn þurfi að áttfalda græna orkuframleiðslu til að ná fram orkuskiptum, sem er markmiðið til að ná árangri í loftslagsmálum. Sem dæmi þá hefur hjálpað okkur — í grænbókinni segir að stærri bílar munu þurfa að vera keyrðir á eldsneyti en ekki rafmagni, þ.e. grænu eldsneyti — að nú eru að koma til landsins tugir vörubíla af stærstu gerð sem eru keyrðir á rafmagni. Það þýðir að við erum að nýta orkuna mun betur. Þeir framleiðendur sem ég hef talað við á Norðurlöndunum telja, setja sér það markmið og eru að vinna að því, og þetta er ekkert í framtíðinni heldur tilbúið núna, að stórir bílar verði almennt á rafmagni, en rafeldsneyti heyrir til undantekninga og sérstakra aðstæðna.

Stóru þættirnir í þessu, og það er auðvitað afturhlaðið, eru millilandaflugið og skipin sömuleiðis. Eins og staðan er núna er fátt sem bendir til annars en að rafeldsneyti þurfi á það. Með innanlandsflugið er hins vegar flest sem bendir til þess að við getum innan tiltölulega skamms tíma keyrt það á rafmagni, og það eru miklir möguleikar í því.

Hv. þingmaður spyr hvað við ætlum að gera í þessu. Við erum ekkert að fara að gera eitthvað, við erum búin að gera mjög mikið og ætlum að halda því áfram. Þessi ríkisstjórn er búin að gera nokkuð sem er grunnurinn að þessu og ég hugsa að þetta verkefni, sérstaklega að klára markmiðin okkar fyrir árið 2030, væri algjörlega vonlaust ef það hefði ekki klárast, en það var að klára rammann. Það er alveg ljóst að ef þú ætlar að framleiða græna orku þá þurfa að vera kostir til staðar og það var gert eftir níu ára kyrrstöðu. Á sama hátt er búið að einfalda leyfisveitingaferlið þegar kemur að stækkun virkjana. Það er eitt af því sem erum að gera og hv. þingmaður vísaði til. António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur skrifað greinar í íslensk blöð þar sem hann segir að þjóðir heims verði að einfalda leyfisveitingaferli til þess að búa til græna orku, án þess að slaka á þeim kröfum sem við viljum gera. Það er eitt af því sem við gerðum til að einfalda það. Sömuleiðis er búið að festa í lög nokkuð sem kallað var varmadælufrumvarpið, sem gengur ekki bara út á varmadælur heldur er verið að einfalda einstaklingum að fá niðurgreiðslu til að spara orku meira.

Við þurfum að gera allt saman — stórt mál er flutningskerfið, eins og hv. þingmaður vísaði til. Svo sannarlega þurfum við líka græna orku og við þurfum líka að fara betur með orkuna. Smátt skiptir líka máli í þessu. Iðulega er talað um rafmagnið en við tölum minna um heita vatnið. Við höfum mjög lítið gert í því að leita að heitu vatni víðs vegar um landið á undanförnum áratug og á höfuðborgarsvæðinu þurfum við reyndar að tvöfalda framleiðsluna til að sjá húsum fyrir heitu vatni á næstu áratugum. (Forseti hringir.) Það er stór biti, en ef við vinnum að þessu saman þá munum við ná árangri sem enginn mun sjá eftir að við höfum náð.