154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

Störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í fjölmiðlum berast nú fréttir af því að Útlendingastofnun hafi ákveðið að umsóknir þeirra Palestínumanna sem hafa óskað eftir fjölskyldusameiningu njóti ekki lengur forgangs hjá stjórnvaldinu líkt og þær hafa gert frá því í október þegar styrjöldin braust út á Gaza. Þetta eru undarleg skilaboð til þeirra sem enn þá bíða meðferðar fyrir hönd sinna aðstandenda. Við fylgdumst með endurfundum í kjölfar komu rúmlega 70 einstaklinga sem hafa bókstaflega verið heimtir úr helju fyrir botni Miðjarðarhafs fyrir helgi, að ógleymdum þeim einstaklingum sem hafa verið sóttir af hálfu hugrakkra íslenskra kvenna sem farið hafa á eigin vegum í þá svaðilför og kunnum við þeim óendanlegar þakkir fyrir.

Forseti. Það er ekki til hættulegri staður á byggðu bóli en á Gaza-strandlengjunni. Það er ekki til hættulegri staður. Allir sem þar eru staddir eiga á hættu að verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem er ekki á nokkurn hátt greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Mér gefst ekki tími til að fara yfir þær ógnir sem stafa af útbreiðslu lífshættulegra sjúkdóma og hungursneyðarinnar sem hefur brotist út og er viðhaldið markvisst af hálfu Ísraelsríkis. Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, hefur ítrekað gefið út að árásir þeirra muni áfram standa yfir í fleiri vikur ef ekki mánuði til viðbótar þangað til þeir hafa náð takmarki sínu sem er gersamlega óljóst. Þær fjölskyldusameiningar — og þetta er mikilvægt — sem eiga sér stað frá Palestínu til aðstandenda á Íslandi eru skólabókardæmi um það hvernig verndarkerfið okkar á að virka í raun. Hérna er sannarlega um að ræða hóp fólks sem þarf á Íslandi að halda umfram önnur ríki og við sem þjóð erum betur í stakk búin til að hjálpa þeim en önnur ríki því hér eru tengslin. (Forseti hringir.) Þar fyrir utan eru öflugar fjölskyldur líklegri til að taka fullan þátt í íslensku samfélagi. Finnst ríkisstjórninni einfaldlega kannski nóg komið af Palestínufólki hér í bili?