131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Mælendaskrá í athugasemdum um störf þingsins.

[13:58]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það hefur verið til siðs á þinginu að verja ráðherra, sérstaklega hæstv. forsætisráðherra, fyrir hugsanlegu áreiti úr þingsalnum. Er þess skemmst að minnast þegar hæstv. forsætisráðherra — eða var hann utanríkisráðherra þá? — talaði þrisvar í umræðu þar sem tekið er fram að menn megi aðeins tala tvisvar.

Hér er verið er að ræða um störf þingsins. Það er ekkert í þingsköpum sem tiltekur að ráðherra eigi að hafa síðasta orðið í þeirri umræðu þó að það sé svo í utandagskrárumræðum og fyrirspurnum. Það er því mjög eðlilegt að hv. þm. Ögmundur Jónasson geri athugasemd við þetta þegar þessi ráðherra og aðrir hafa þann hátt á að koma með ný efnisatriði í síðustu ræðunni sem þingmenn geta ekki svarað. Fyrir þessu verðum við aftur og aftur.

Hins vegar má segja að þetta sé kannski rökrétt því það bætir upp að ráðherrar eru ekki menn orðsins, þeir eru menn hins síðasta orðs.