131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

215. mál
[14:10]

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um frumvarp til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar. Markmið þessa frumvarps var fyrst og fremst að rýmka refsilöggjöfina og gera sýnilegri gagnvart stærð brotanna. Frumvarpið var flutt af þingmönnum allra flokka og reyndar af meginþorra þeirra sem skipuðu þá samgöngunefnd um að minni háttar brot skyldu ekki vera bundin lágmarksrefsingu eins og var í fyrrgreindum lögum. (Gripið fram í: Sjávarútvegsnefnd.) Í sjávarútvegsnefnd. Þetta er í sjálfu sér …

(Forseti (BÁ): Forseti vill áminna þingmenn um að gefa hv. þm. Jóni Bjarnasyni tækifæri til að ljúka ræðu sinni.)

Maður veit aldrei hvaðan á sig stendur veðrið í þessum þingsal, eins og forsætisráðherra verður oft að mæta hér og rakti áðan.

Frumvarpið lýtur að því að breyta refsilagarammanum um brot á lögum um nytjastofna sjávar og því að fyrir minni háttar brot séu ekki lagðar á miklar refsingar. Ég styð þessar breytingar sem voru gerðar á frumvarpinu vegna þess að ég tel að það frumvarp sem nú er í gangi, eins og það kemur frá nefndinni, sé framför. Hins vegar vek ég athygli á því að í nefndinni var, að ég hélt, samstaða um að sett yrði í gang sú vinna að kanna refsiramma og refsingar gagnvart brotum á lögum sem lúta að sjávarútveginum, fiskveiðum, umgengni um nytjastofna sjávar, öðrum brotum í þjóðfélaginu, þannig að um nytjastofna sjávar giltu ekki einhver sérstök lög og harðari en gilda almennt í þjóðfélaginu. Þetta átti að samræma. Það er ekki eðlilegt að sjómenn verði frekar en aðrir dæmdir fyrir fram sem afbrotamenn eða harðar dæmdir en það væri þá í valdi dómarans að gera það. Ég tel mikilvægt að sjávarútvegsnefnd taki þetta mál til skoðunar á þennan hátt.