131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

215. mál
[14:12]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þingflokkur Frjálslynda flokksins hefur ákveðið að vera samþykkur þessu frumvarpi, reyndar með fyrirvara. Hér er verið að setja ný ákvæði varðandi refsingu þegar um er að ræða brot á fiskveiðistjórnarlögunum. Við erum ekki fyllilega sammála þeirri lendingu sem náðst hefur í þessu máli.

Við höfum haft veður af því að fulltrúar bæði minni hlutans og meiri hlutans í sjávarútvegsnefnd hafi lagst í nokkurs konar samningaviðræður við fulltrúa frá framkvæmdarvaldinu um þessa lagasetningu. Hér er ég þá að tala um embættismenn í sjávarútvegsráðuneytinu. Ég tel þá þróun mjög varhugaverða þegar þingnefndir leggjast í samningaviðræður við embættismenn úti í bæ um það hvernig haga beri lagasetningum í landinu. Slík þróun verður einnig áberandi í ljósi þeirrar umræðu sem við tókum áðan um að ákveðin nefnd á vegum framkvæmdarvaldsins hefði ekki séð ástæðu til að mæta einu sinni fyrir þingnefnd.

Mig langaði til að vekja athygli á þessu og tel ekki vanþörf á.

Við hefðum gjarnan viljað sjá þær breytingar sem verið er að gera á þessum lögum ganga lengra vegna þess að hér er aðeins kveðið á um að ef um ítrekað brot sé að ræða, og þá jafnvel smávægilegt, litlar yfirsjónir, jafnvel fyrir slysni, skuli lágmarkssekt áfram verða 400 þús. kr. Þetta er allt of há upphæð, allt of strangt. Því miður hefur mjög margt í fiskveiðilöggjöfinni verið allt of strangt. Refsigleðin hefur ráðið þar ríkjum allt of lengi og það er fyllilega kominn tími til að þetta verði allt skoðað ofan í kjölinn. Á hitt ber þó að líta að þær umbætur sem hér eru gerðar eru það jákvæðar að við teljum rétt að vera með og segja já með þeim fyrirvara sem ég hef greint frá.