132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[14:48]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef ákveðið að taka áskorun frá hv. þm. Pétri H. Blöndal um að tala hér — þeirri áskorun til forseta Alþingis að leyfa mönnum að tala um þetta mál. Ég sakna þess að vísu að hv. þingmaður er farinn úr salnum … (Forseti hringir.)

(Forseti (SP): Forseti spyr hvort hv. þingmaður sé ekki hér að tjá sig um fundarstjórn forseta.)

Jú, ef ég fæ frið til þess mun ég gera það, virðulegi forseti.

(Forseti (SP): Hvað á hv. þingmaður við?)

Ef ég fæ að halda máli mínu áfram eins og aðrir þingmenn.

(Forseti (SP): Ef hv. þingmaður ræðir um fundarstjórn forseta fær hann frið til þess.)

Að sjálfsögðu. Það þarf stundum að hafa aðdraganda að því sem maður vill segja, virðulegi forseti.

Það er líka svo að hér hefur verið farið upp um störf þingsins og rætt um fundarstjórn forseta af stjórnarþingmönnum. Hv. þm. Birkir J. Jónsson hóf umræðuna með því að lesa bréf sem kom frá Selfossi í dag eins og þar væri einhver stóri sannleikur á ferð sem mundi gjörbreyta málinu. (Gripið fram í: Hver sagði það?) Virðulegi forseti. Ég vil mótmæla því að svo sé.

Það er rétt að hafa það í huga að í ályktun ráðstefnunnar Vatn fyrir alla, sem m.a. UMFÍ skrifar upp á segir, með leyfi forseta:

„Vegna mikilvægis vatns fyrir íslenska þjóð og lífríki landsins telja undirrituð samtök nauðsynlegt að fest verði í stjórnarskrá Íslands ákvæði um skyldur og réttindi stjórnvalda og almennings hvað varðar réttindi, verndun og nýtingu vatns. Lög og reglugerðir um nýtingu vatns taki því mið af …“

Virðulegi forseti. Sem betur fer hefur þetta ekki verið dregið til baka. Þetta er auðvitað aðalatriði málsins sem kemur frá UMFÍ. Það er rétt, virðulegi forseti, að halda því til haga að þessi ummæli og þessi samþykkt hefur ekki verið dregin til baka frá hendi UMFÍ. Auðvitað er það miður að UMFÍ skuli láta blanda sér inn í þann pólitíska slag sem er nú á Alþingi.

Virðulegi forseti. Ég vil líka geta þess hér — vegna þess að það kom fram í umræðunni um þetta mál, að því er mér finnst til þess að reyna að gera það ótrúverðugt, þetta einkavæðingarmál stjórnarsinna á vatni, að setja vatnsauðlindina á braskmarkað, færa auðlindina í einkaeigu einhverra, sem hv. þm. Pétur H. Blöndal talaði hér um gagnvart Kárahnjúkavirkjun. Hann talaði eins og allt væri þar klappað og klárt. Virðulegi forseti. Ég má til með, og það er erindi mitt hér til að ræða um fundarstjórn forseta, það verður að koma fram — ef hv. þingmaður hefur ekki verið í þinghúsinu í gær og tekið eftir því — að hæstv. iðnaðarráðherra talaði í gær um tvær nefndir sem væru að störfum vegna Kárahnjúkaframkvæmda fyrir austan sem lyti að flutningi vatns milli svæða og hugsanlega eignarnámsbóta.

Virðulegur forseti. Þetta er auðvitað grundvallaratriði. Vatn milli svæða fyrir austan verður ekki flutt fyrr en næsta vor. Og þegar það kemur til eignarnámsbóta þegar þeir vatnsflutningar hefjast verða þeir út af þeim lögum sem þá verða í gildi, ekki lögum sem eru núna í gildi. Það er, virðulegi forseti, sennilega ástæðan fyrir þessu óðagoti (Forseti hringir.) stjórnarsinna um þessi nýju vatnalög.

(Forseti (JóhS): Forseti heyrði ekki að hv. ræðumaður væri að tala hér um fundarstjórn forseta og brýnir fyrir þeim ræðumönnum sem ætla að taka til máls undir þeim dagskrárlið að ræða um fundarstjórn forseta.)