132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[15:10]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég geri ráð fyrir því að þeir sem ræða um fundarstjórn forseta hafi kannski mestar áhyggjur af því að það mál sem er til umræðu hérna, vatnalagafrumvarpið og það sem fylgir því í umræðunni, setji allt þingstarf úr skorðum. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst að forsetadæmið hjá Alþingi þurfi bara að hugsa sinn eigin gang. Hvernig stendur á því að hæstv. forseti, aðalforseti og forsetadæmið með honum, hefur ekki farið yfir og horfst í augu við það að þetta eru ótæk vinnubrögð á Alþingi? Alþingi er haldið hér í úlfakreppu í kringum mál sem stjórnarliðar koma hver eftir annan upp í ræðustól og segja að skipti engu máli. Önnur mál bíða öll úrlausnar á meðan og forsetadæmið situr bara og stjórnar fundum endalaust út af þessu máli sem engu máli skiptir, samkvæmt þessari skilgreiningu. Við höfum aðra skoðun á málinu og munum auðvitað standa í ræðustól og ræða um okkar skoðun á málinu þar til yfir lýkur.

Forsetadæmið hlýtur að þurfa að skoða hvort það tekur mark á okkur eða þeim sem segja okkur það í sölum Alþingis að þetta sé bara formbreyting og skipti engu máli. Ef forsetadæmið tekur mark á því hlýtur það að velta því fyrir sér hvort ekki sé nær að Alþingi fáist við önnur mál en þetta. Þurfa menn ekki aðeins að velta því fyrir sér hvað er fram undan hér? Ábyrgðin á stjórn þingsins verður ekki tekin frá forsetum Alþingis. Þeir bera ábyrgð á henni og þeir eru forsetar Alþingis, ekki bara forsetar ríkisstjórnarflokkanna. Þeir hljóta að þurfa að velta því fyrir sér hvort hér sé rétt að málum staðið og hvort það sé skynsamlegt að halda þessari umræðu áfram með þessum hætti.

Ég segi það alveg eins og er að mér finnst full ástæða til að þessi umræða fái aðeins kælingu. Það væri bara ráð til hæstv. forseta að þeir frestuðu þessari umræðu, leyfðu mönnum að velta þessu aðeins fyrir sér, héldu svo áfram með þinghaldið með eðlilegum hætti næstu daga og tækju þá þetta mál aftur á dagskrá ef þeir sæju að hægt væri að vinna að því af einhverri skynsemi. Það er alveg greinilegt að hér er allt fast. Það er ekki bara ég sem óska eftir þessu. Hér hafa komið upp fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, tveir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir því að formenn stjórnmálaflokkanna ræddu þessi mál sín á milli vegna þess að þau væru í sjálfheldu. En forsetar Alþingis halda áfram að stjórna fundum sem ekkert gengur með.