132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[23:29]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Marðar Árnasonar sem talaði á undan mér. Við sitjum í hér þingsal, þingmenn, í krafti 53. gr. þingskapa, kvörtum ekki neitt á háu nótunum en ég tel að hæstv. forseti ætti að sýna þá mildi að fara að slíta þessum fundi. Hann er orðinn langur og strangur fyrir okkur sem höfum setið hér og tekið þátt í umræðunni og hlustað á umræðuna og einbeitt okkur að því að undirbúa þær ræður sem eftir er að flytja.

Nú háttar svo til, frú forseti, að ég er næst á mælendaskrá og ég verð að segja það, án þess að ég kinoki mér við að vera hér eins lengi og hæstv. forseti segir til um, að ég tel að mér og ræðu minni og málflutningi mínum yrði ákveðinn greiði gerður ef ég fengi að hefja ræðu mína fyrst á þingfundi á morgun frekar en að byrja á henni nú í einhverri óvissu um það hvort umræðunni yrði frestað eftir hálftíma eða kannski korter, ef forseti ákveður að slíta fundi þá. Ég tel því að hæstv. forseti þurfi að láta okkur þingmenn fá einhverja vitneskju um hvað fyrirhugað er með framhald þessa fundar. Það er heldur ekki óeðlilegt í ljósi þess sem hv. þm. Mörður Árnason minntist á, að hér mun standa yfir í húsinu fundur þar sem verið er að reyna að leita eftir því á hvern hátt þessari umræðu geti lokið. Ég held að hæstv. forseti gæti lagt sitt lóð á vogarskálina í þeim efnum með því að sýna þá mildi að slíta þessum fundi, heimila þingmönnum að fara heim í háttinn til að þeir geti safnað kröftum fyrir strangan dag sem við eigum í vændum á morgun.