138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Í sömu veru vildi ég ræða um mikilvægi þess að við stöndum saman um nýfjárfestingar í orkunýtingu. Sú einstaka staða sem þjóðin býr yfir til fjölbreytilegrar orkunýtingar skiptir öllu máli til að ná viðspyrnu út úr samdrætti í bata og skapa þannig ný störf og verulega auknar gjaldeyristekjur. Í yfirliti sem ég hef undir höndum frá iðnaðarráðuneytinu um áætlanir frá fyrirtækjunum sjálfum má glöggt sjá, miðað við að þær nái fram að ganga, hve gríðarlegir möguleikarnir eru til uppbyggingar í orkuiðnaði og orkuöflun. Fjárfestingar sem hér um ræðir eru samtals um 400 milljarðar kr. til ársins 2017, þar af 265 milljarðar kr. í ár og næstu þrjú árin. Áhrif þeirra á þróun efnahagsmála eru því verulega mikil og skiptir algjörum sköpum að okkur takist að koma þessum verkefnum fram núna næstu vikur, mánuði og missiri til að ná upp mikilli viðspyrnu út úr samdrætti og sköpun nýrra starfa.

Helstu verkefnin eru bygging Búðarhálsvirkjunar, stækkun álversins í Straumsvík og bygging álversins í Helguvík, og þar skiptir miklu máli að Landsvirkjun komi að tímabundinni orkusölu á þeirri umframorku sem hún á í kerfinu nú þegar, orkuverkefni á Norðurlandi þar sem ráðherra hefur ritað undir viljayfirlýsingu við þrjú sveitarfélög í Þingeyjarsýslu, bygging gagnavers Vernes Holdings í Reykjanesbæ sem nú er í frumvarpi til fjárfestingarsamnings í iðnaðarnefnd og nokkur gagnaver sem Greenstone hyggur á byggingu á en enn hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun um. Síðast en ekki síst má nefna kísilmálm og sólarkísilmálmverksmiðju í Ölfusi sem Orkuveita Reykjavíkur og það fyrirtæki sem á bak við stendur hafa nýlega skrifað undir viljayfirlýsingu um sölu til á 85 megavöttum af orku. Þetta eru allt stór og mikil verkefni og þau munu ráða afdrifum okkar í efnahagsmálum á næstu mánuðum og missirum og þess vegna þarf þingheimur að standa saman að því að vinna þessum málum (Forseti hringir.) fram á næstunni.