138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

einkaréttur á póstþjónustu.

346. mál
[14:49]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspurn frá hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur sem snýst um einkarétt á póstþjónustu. Spurningin hljóðar einfaldlega svo: Hyggst ráðherra fresta afnámi einkaréttar á póstþjónustu en að öllu óbreyttu verður hann afnuminn 1. janúar 2011?

Tilskipun 2008/6 er sú þriðja og síðasta í röð tilskipana sem hafa tekið skref til að draga úr einkaleyfisrekstri og hafa þær m.a. opnað fyrir ýmiss konar aðkomu einkaaðila, svo sem að pósti yfir 50 g og að dreifikerfi einkaréttarhafans í heildsölu. Með tilskipun 2008/6 er einkaleyfi til póstdreifingar að fullu afnumið, þó með ráðstöfunum sem ætlað er að tryggja hag neytenda og varða aðgengi að póstþjónustu og gæðum hennar. Með innleiðingu tilskipunar 2008/6 frá EB verður einkaréttur fyrirtækja á EES-svæðinu til póstburðar á bréfum allt að 50 g afnuminn 31. desember næstkomandi. Ellefu ESB-ríki hafa fengið heimild til að fresta gildistökunni um tvö ár. Meðal annars segir í stefnuyfirlýsingu norsku ríkisstjórnarinnar frá 7. október 2009 að stjórnvöld þar muni sækja um frestun á afnámi einkaréttar og skoða málið nánar.

Það er mitt mat að rétt sé að fresta gildistöku tilskipunarinnar um tvö ár hér á landi svo meiri tími gefist m.a. til undirbúnings fyrir aðila á póstmarkaði, undirbúnings löggjafar og til að greina markaðinn. Í öðru lagi að skilgreina alþjónustu sem tekur mið af sérstöðu Íslands og hinum dreifðu byggðum landsins og í þriðja lagi að finna hagkvæmustu leiðir við fjármögnun alþjónustu úr ríkissjóði eða með jöfnunargjaldi. Í samræmi við þetta hefur ríkisstjórnin samþykkt að tillögu minni að leita eftir frestun á ákvæði tilskipunarinnar sem kveður á um afnám einkaréttar um allt að tvö ár. Ráðuneytið vinnur að málinu á vettvangi EFTA með fyrirvara um ákvörðun hinnar sameiginlegu nefndar EES/EFTA-ríkjanna og tekur ákvæði tilskipunarinnar um opnun póstmarkaða gildi í síðasta lagi 1. janúar 2013. Undirbúningur fyrir gildistöku tilskipunarinnar er hafinn og gert er ráð fyrir að hafa samráð við aðila á markaði þegar lengra er komið og undirbúningurinn er kominn á fullt skrið.