138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

tilfærsla verkefna frá Umhverfisstofnun til Heilbrigðiseftirlits Austurlands.

360. mál
[15:07]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað og þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hennar. Ég vil ítreka í þessu sérstaka tilviki með Heilbrigðiseftirlit Austurlands að þetta er átta ára ferli. Heilbrigðiseftirlit Austurlands hefur í átta ár staðið í bréfaskriftum við umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun og óskað eftir því að fá frekara framsal á verkefnum en hefur í raun og veru engin svör fengið önnur en þau að samningnum við það var sagt upp fyrir stuttu síðan.

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg hvað er í gangi. Ég vil taka fram að mér finnst að faglegar forsendur eigi að vera í heiðri hafðar og að sjálfsögðu á að taka fullt tillit til þeirra en ríkisstjórnin okkar vill einfaldara Ísland. Hún vill selja beint frá býli, hún vill styrkja sveitarstjórnarstigið, hún vill efla atvinnu á landsbyggðinni og í takti við þær yfirlýsingar hljótum við að skoða þetta mál með virkilega jákvæðum hætti. Átta ára fyrirspurnum (Forseti hringir.) Heilbrigðiseftirlits Austurlands þarf að svara núna.