138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

matvæli og fæðuöryggi á Íslandi.

379. mál
[15:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson) (F):

Virðulegi forseti. Árið 1996 stóð Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna að ríkjaþingi um fæðuöryggi. Þar var samþykkt svonefnd Rómaryfirlýsing sem hefur meðal annars að geyma hugtakaskilgreiningu um fæðuöryggi. Þar segir, með leyfi forseta:

„… að fæðuöryggi sé til staðar þegar allir menn, á öllum tímum, hafa raunverulegan og efnahagslegan aðgang að nægum, heilnæmum og næringarríkum mat sem fullnægir þörfum þeirra til að lifa virku og heilsusamlegu lífi.“

Þessu markmiði verði svo náð með skipulagningu á öllum stigum. Hver þjóð þarf þess vegna að gera áætlun á grundvelli möguleika sinna til að ná eigin markmiðum um fæðuöryggi og vinna um leið með öðrum þjóðum svæðisbundið og á alþjóðavísu við að skipuleggja sameiginlegar aðgerðir til að leysa úr viðfangsefnum sem ógna fæðuöryggi á heimsvísu.

Við Íslendingar vorum síðasta haust rækilega minntir á mikilvægi eigin matvælaframleiðslu. Við þurftum í fullri alvöru að takast á við spurningar um hve mikill gjaldeyrir væri til í landinu til ráðstöfunar og hvernig mætti verja honum. Þá var líka spurt um það hversu mikill matur væri til í landinu. Í ljósi alls þessa langar mig til að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra einfaldlega þessarar spurningar:

1. Er til einhver opinber stefna um fæðuöryggi í landinu?

2. Eru einhver viðmið til um það hversu mikið þarf að vera til af matvælum í landinu á hverjum tíma?