139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:54]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðalatriðið er að við hv. þingmaður erum sammála um að sú niðurstaða sem hefur fengist í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir Alþingi er ekki nægilega góð. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það lofar ekki góðu um framhaldið þegar lagt er af stað í svona miklum ágreiningi um sjálfa umgjörðina eins og hv. þingmaður komst að orði hérna áðan.

Það sem ég vakti einfaldlega athygli á var það að ef menn færu þá leið sem hv. þingmaður nefnir tel ég að við eigum ekki bara að líta til niðurstöðu Hæstaréttar. Við eigum líka að reyna að læra af því sem gerðist í þessari kosningu. Ég var á móti stjórnlagaþingskosningunni, ég tók samt þátt í henni, ég kaus, en ég var á móti þessari aðferðafræði og ég tel að það sem við höfum séð hafi verið alls konar hlutir sem við ættum þá að læra af, verði niðurstaðan að fara þá leið sem hv. þingmaður mælti með, m.a. þetta sem ég nefndi og ýmislegt annað. Ég teldi t.d. eðlilegt að gera kröfur um lágmarksþátttöku, ég teldi t.d. eðlilegt að gera þá kröfu að menn fengju ekki kosningu nema þeir fengju tiltekinn hluta af greiddum atkvæðum (Forseti hringir.) í þessari kosningu til að tryggja fullkomið lögmæti og fullkomið umboð þeirra sem eiga að véla um stjórnarskrána. Við skulum hafa það í huga að stjórnarskráin sjálf er hér undir.