139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[15:55]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Gleymum samt ekki grunninum: Hæstiréttur úrskurðaði stjórnlagaþingið ógilt. Það er grunnurinn í þessu máli og Alþingi ber að virða niðurstöðu Hæstaréttar. Sex hæstaréttardómarar dæmdu þessar kosningar ógildar, það er grunnurinn í þessu.

Við stöndum frammi fyrir því, með þessari þingsályktunartillögu, að búið er að taka þá ákvörðun, þrjár ágætar þingkonur gera það, að leggja þetta fram í formi þingsályktunartillögu. Það hefur komið í ljós í umræðum í dag að þær vonast til þess að ríkisstjórnin styðji þá tillögu. En það væri kannski í stíl við ríkisstjórnina að hún mundi hlaupa frá þessum ágætu þingkonum og skilja þær eftir með málið. Við þekkjum vinnubrögð ríkisstjórnarinnar, allt þetta boðaða samráð og gervisamráð. Vísa ég þar meðal annars í afsögn landskjörstjórnar. Auðvitað átti landskjörstjórn kannski ekki að segja af sér af því að kosningarnar voru á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. En það voru þarna fjórir aðilar sem sögðu af sér en einn er genginn í endurnýjun lífdaga og hefur tekið sæti í landskjörstjórn á ný — alveg dæmalaust — og hann kemur frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

Varðandi það sem ég var að tala um, og hv. þingmaður kom inn á, að hrunið hafi kannski orðið út af veilu í hlutafélagaforminu þá minni ég enn á ný á lagaskrifstofu Alþingis. Það væri fróðlegt að vita hvort þessi þingsályktunartillaga hefði komið inn í þingið ef hér starfaði lagaskrifstofa Alþingis með okkar færustu prófessorum og lögfræðingum. Það eru allir lagaspekúlantar landsins sammála um að sú leið sem lögð er til sé ófær. En ég vísa jafnframt í að hér situr á hátíðarstundum hæstv. umhverfisráðherra í salnum og dettur ekki í hug að segja af sér þó að hinn sami Hæstiréttur hafi dæmt gerðir hennar ólöglegar. Setið sem fastast. (Forseti hringir.) Ríkisstjórnin situr sem fastast. Ríkisstjórnin virðist (Forseti hringir.) ekki vera að fara eftir þeim lögum (Forseti hringir.) sem Alþingi setur henni.