141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

staða Íbúðalánasjóðs.

[10:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Það að ríkisstjórnin hafi ekki náð tökum á efnahagsstjórninni eins og kemur fram í máli hv. þingmanns er náttúrlega ekkert annað en einhver sýning af hennar hálfu. Staðreyndin er að við höfum verið að fá hækkun á lánshæfismati hjá matsfyrirtækjum að undanförnu. Hjá einu þeirra fórum við úr neikvæðum horfum í stöðugar og hjá öðru þeirra hækkuðum við beinlínis um flokk. Það var gert vitandi hver staða Íbúðalánasjóðs væri vegna þess að hún hefur legið fyrir. Það kom líka fram í gær þegar ljóst var að Íbúðalánasjóður yrði færður niður um flokk en þó úr neikvæðum horfum í stöðugar sökum þess að ríkissjóður hefur verið að styrkja sig. Það er staðreyndin. Við skulum ekki mála myndina neitt öðruvísi en hún er.

Staðreyndin er líka sú að það lá algerlega fyrir við fjárlagaumræðuna í haust að við vissum að Íbúðalánasjóður væri í vanda en við fullyrtum einnig að ríkissjóður mundi standa að baki sjóðnum. Við erum farin af stað með margvíslegar aðgerðir. Það er heill vinnuhópur í gangi til að taka á málefnum Íbúðalánasjóðs. Það er búið að veita heimildir til innspýtingar í eiginfjárhlutfalli og það skiptir allt saman máli. Við erum á réttri leið með Íbúðalánasjóð. Ég tel að eðlilegt sé að við tökum bráðlega góða umræðu um Íbúðalánasjóð í þinginu og förum vandlega yfir stöðuna og það sem hefur gerst síðan skýrslan kom fram á haustdögum. Við náum því ekki á svona stuttum tíma en gripið hefur verið til aðgerða og það er algerlega ljóst að ríkissjóður stendur að baki sjóðnum. Það er líka algerlega ljóst að Íbúðalánasjóður er settur á stöðugar horfur vegna sterkrar stöðu ríkissjóðs. Ríkissjóður hefur styrkt sig og það er ekki hægt að segja að við höfum ekki náð tökum á efnahagsstjórninni þegar við höfum lokað risastóru fjárlagagati sem var skilið eftir eftir hrunið.