144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Frá því ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við hefur hún nánast gert allt þveröfugt við það sem stendur í hinni fallega orðuðu stefnuyfirlýsingu hennar og segja má að hún hafi hent vinnu mörg þúsund Íslendinga á öskuhauga sögunnar. Nýsamþykkt lög um Ríkisútvarpið fuku. Fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013–2015 slegin af. Sóknaráætlun 20/20, sóknaráætlun landshlutasamtaka sveitarfélaganna, náttúruverndarlögin, rammaáætlun er í uppnámi og loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna við ESB svikin. Ekki er haft samráð um nokkurn skapaðan hlut. Hér ríkja enn fjármagnshöft. Hér er enn verðtrygging. Húsnæðis-, hjúkrunar- og heilsugæslumál eru í mikilli óvissu. Fólki er mismunað vegna búsetu hvað varðar ýmsa þjónustu. Langtímastefnumótun fyrir ferðaþjónustu hefur látið á sér standa og nokkuð ljóst að til stórkostlegra vandræða horfir ef ekki verður brugðist fljótt við. Ástand vegakerfis landsins er góður vitnisburður um það. Málefni eldri borgara, barna, fatlaðra, öryrkja og ungs fólks sitja á hakanum. Smánarlegum upphæðum er varið í þessa málaflokka sem gera það að verkum að biðlistar lengjast og vandamálin sem þessir hópar eiga við að glíma stækka og stækka. Velferðarkerfið er í raun að molna niður.

Hér hefur ríkt ófriðarástand á vinnumarkaði. Verkföll og verkfallsboðanir hafa dunið á sem aldrei fyrr. Nú stefnir í harðvítug átök á vormánuðum þar sem sá þjóðfélagshópur sem erfiðustu störfin vinnur en minnst hefur á milli handanna á að bera þær byrðar að hér ríki stöðugleiki, stöðugleiki fyrir ríka fólkið. 300 þús. kr. lágmarkslaun er krafan. Það er í mínum augum hlægilega lág upphæð í ljósi þess sem millistjórnendur forstjórar og forkólfar atvinnurekenda skammta sér mánaðarlega.

Hæstv. forseti. Hér koma svo stjórnarþingmenn í pontu og kvarta yfir vanþakklæti fólksins í landinu, barma sér vegna skoðanakannana og að hér sé ekki ríkjandi karnivalstemming út af skuldaleiðréttingunni. Ég hvet þessa þingmenn til þess að koma niður á jörðina til okkar hinna.