144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Mér fannst mjög athyglisvert hvernig hún endaði ræðu sína. Hún kom fram með ákveðna kenningu um hver ástæðan væri fyrir öllu þessu brölti hjá hæstv. utanríkisráðherra. Ég hef þá reynslu af hv. þingmanni að hún hefur nú oftar en ekki rétt fyrir sér, hún er fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra sem þekkir nú ýmislegt sem snýr að aurum og krónum og orskavalda ýmissa ákvarðana.

Mig langar að heyra betur frá hv. þingmanni varðandi 24. tillöguna hjá hagræðingarhópnum. Ef þetta liggur nú þannig að hæstv. ráðherra hafi raunverulega hrakist út í þessa ákvörðun, sem manni er nú farið að sýnast að hafi verið raunin, hefði þá ekki verið einfaldara að ganga bara að þessari tillögu og spara sér 10 milljónir með þeirri skýrslu sem gerð var fyrir ráðuneytið, þar sem skýrslan fór ekki í neina lýðræðislega umræðu á þingi? Hefði þá ekki verið hægt að ganga hreint til verks og segja: Þetta er vilji okkar í utanríkisráðuneytinu og vilji minn sem ráðherra að gera þetta svona, og spara sér allt þetta, af því að menn beita ekki faglegum vinnubrögðum? Nú liggur önnur skýrsla undir sem sýnir allt aðra niðurstöðu en skýrsla Þóris Guðmundssonar.