144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[20:01]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki skilið annað af þessum lokaorðum ráðherrans en að ekki hafi verið haft samráð heldur hafi einhverjum stofnunum verið kynnt hvað ráðherrann hugsaði sér eða hvað ráðuneytið hugsaði sér að gera. Mér heyrist á ráðherranum að fram hafi komið einhverjar athugasemdir en við sjáum þær hvergi. Þeirra er hvergi getið, það er hvergi rökstutt í þeim miklu breytingum sem hér eru að verða af hverju ekki var hlustað á þær ábendingar sem komu til dæmis frá Ríkisendurskoðun eða fjármálaráðuneytinu. Ég segi það bara núna sem ég sagði í upphafi umræðunnar að þetta frumvarp er algjörlega vanbúið og mér finnst það næstum því hæstv. ráðherra til vansa að leggja það fram eins og það er.