145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[19:38]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja þar sem þingmaðurinn endaði. Við þurfum að tikka í boxin.

Það eru þessi box sem ég vil horfa á. Hvað höfum við upp á að bjóða sem þjóð? Þurfum við að bjóða upp á spilahöll til þess að draga að ráðstefnugesti? Það held ég ekki. Það er ekki mín skoðun og mér finnst að við eigum frekar að hafna þeirri hugmynd frekar en hitt. Við eigum að bjóða upp á eitthvað annað en aðrir. Það getur verið ýmislegt. Ég ætla ekki að fara í einhvern sparðatíning um hvað það geti verið. En mér finnst alla vega mikilvægt að við hugsum til þess að það geti verið eitthvað annað.

Mér finnst mjög mikilvægt að við setjum almennilegan lagaramma utan um málið og ef hann er ekki nægjanlegur, sem ég tel hann ekki vera í dag, miðað við það hvernig þessi starfsemi þrífst hér, þurfum við að lagfæra það. En að við þurfum að búa til spilahöll og einokunarfyrirtæki til þess að geta sett einhverja lagasetningu utan um það finnst mér ekki vera rétta niðurstaðan.

Ég væri hins vegar alveg til í að setja á stofn spilastofueftirlit, eða hvað það nú mundi heita, til að fylgjast betur með því sem við erum nú þegar að glíma við. En fyrst og síðast mundi ég taka þessa starfsemi af markaðnum.

Hv. þingmaður talar um að hlutirnir fari undir radar. Ég sagði að ef við hefðum haft þá vitneskju um áfengi sem við höfum í dag þegar það kom hingað til lands eins og annars staðar, þegar byrjað var að brugga og allt það, hefðum við hugsað okkur tvisvar um. Það var það sem ég átti við. Ekki það að Ísland mundi loka á allt í ljósi alls þess sem er að gerast. En vitneskjan segir okkur ýmislegt.

Við getum alltaf skýlt okkur á bak við það að eitthvað fari undir radar. Við erum að kljást við ferðaþjónustuna (Forseti hringir.) og segjum að hún fari undir radar. Það er ekki niðurstaða mín að það dugi til að segja að þessi starfsemi fari annars undir radar. Við eigum hins vegar að reyna að ná utan um það með einhverjum hætti sem við erum að kljást við.