151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

750. mál
[16:54]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Við fjöllum hér um tillögu til þingsályktunar um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða sem, ef hún verður samþykkt, taki við og leysi af hólmi núgildandi stefnu sama efnis sem samþykkt var á Alþingi á vordögum 2011. Mikið vatn og meira en þykir gott hefur runnið til sjávar á norðurslóðum og varðandi þróun alþjóðamála síðan þá og eðlilegt að málefnið sé stöðugt á dagskrá.

Herra forseti. Málefni norðurslóða, bæði á sviði umhverfis og samfélaga eru brýn í núverandi landslagi stjórnmála og loftslagsbreytinga. Verkefnin sem blasa við samfélögunum nú þegar og enn frekar í næstu framtíð eru krefjandi og kalla á framsýnar lausnir, öflugt samstarf, bæði svæðisbundið og á alþjóðavísu.

Áskoranirnar eru stórar fyrir landsvæðin sjálf, stjórnmálin, vísindamenn og fræðasamfélagið um gervalla veröld, að efla samstarf um þekkingu, sköpun og lausnamiðaða hugsun. Allar rannsóknir og kannanir hníga að hinu eina og sama, verkefnið er gríðarlegt. Almenningur, sérstaklega yngri kynslóðin sem sýnir hug sinn í verki, vill að á loftslags- og umhverfismálunum sé tekið af festu og ábyrgð. Hávært ákall er um nýja samfélagslega nálgun og breytt gildismat þar sem sjálfbærni og hringrásarhagkerfið eru sett í fyrsta sæti.

Á fáum stöðum í heiminum eru áhrif loftslagsbreytinga jafn sýnileg og hér á norðurslóðum og gætir áhrifanna nú þegar á mörgum sviðum samfélaga; hopun jökla, minnkandi hafísþekja og þiðnun sífrera. Hitastig á norðurslóðum heldur áfram að hækka a.m.k. tvöfalt hraðar en að meðaltali á veraldarvísu, eins og hæstv. ráðherra kom inn á. Krafa er því um að heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun séu höfð til hliðsjónar í allri stefnumótun og samstarfi á norðurslóðum, og meginstoðirnar þrjár, hinar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu.

Samfélögin á norðurslóðum eru mörg fámenn og afskekkt og víða skortir nauðsynlega innviði. Samfélögin eru þó ekki einsleit, enda er það svæði sem telst til norðurslóða afar víðfeðmt en þar búa um fjórar milljónir manna. Mörg þessara samfélaga eru vel tæknivædd og vel tengd, bæði með fjarskiptum og neti. Grænar lausnir í skipulags- og orkumálum, lýðheilsa, jafnrétti, menntun og sjálfbær auðlindanýting eru einnig brýn viðfangsefni samfélaga á norðurslóðum og eru nú þegar áherslumál víða. Þróunin er ör, hvort sem það eru áskoranir á sviði umhverfis- og loftslagsmála eða blikur á lofti í hernaðarumsvifum, umferðaröryggi á norðurslóðum í lofti sem legi, auðlindanýting af öllu tagi og mengunarvarnir. Að samanlögðu kallar þetta á aukna meðvitund og markvissa nálgun.

Í þessu andrými settist þingmannanefnd yfir endurskoðun á núgildandi stefnu Íslands í málefnum norðurslóða sem kynnt var ráðherra hinn 19. mars síðastliðinn eins og fram hefur komið.

Norðurslóðaþjóð, norðurslóðaríki. Ísland telst óumdeilanlega vera í hópi þeirra þótt ekki sé til nein einhlít skilgreining á þessu hugtaki eða fyrirbæri. En samkvæmt viðmiðunum sem gjarnan eru notaðar fellur landið að mestu innan marka norðurslóða og líka stærstur hluti efnahagslögsögunnar og hefur þessa sérstöðu ásamt t.d. Grænlandi. Ímynd norðurslóða hefur jafnan verið þannig að þetta sé friðsælt svæði þar sem samvinna sé farsæl og öflug, þar sem farið er að alþjóðalögum og fullveldisréttur ríkja virtur. Mörg teikn eru hins vegar um að á þessu séu orðnar breytingar, eða a.m.k. að verða breytingar. Stórveldin sýna svæðinu æ meiri áhuga, auðlindir freista og loftslagsþróun skapar nýjar aðstæður, nýja möguleika, miklar áskoranir. Spenna hefur farið vaxandi og þar hafa aukin hernaðarumsvif stórveldanna haft veruleg áhrif og eru alvarlegt úrlausnarefni þjóðanna vítt og breitt.

Herra forseti. Eins og fram kemur í tillögum vinnuhóps þingmanna þá gegnir Norðurskautsráðið mjög mikilvægu hlutverki fyrir þær átta þjóðir sem það mynda og er einhver dýrmætasti samráðs- og samstarfsvettvangur okkar um málefni svæðisins. En Norðurskautsráðið er þó ekki alþjóðastofnun í þeim skilningi og setur ekki bindandi reglur þótt ráðið hafi í raun komið að gerð lagalega bindandi samningum um sameiginleg hagsmunamál. Styrkleiki þess felst kannski fyrst og fremst í að byggja brýr milli vísinda og stjórnmála. Í þessu efni hafa Íslendingar verið ötulir liðsmenn, t.d. með því að styrkja ýmis verkefni, t.d. Hringborð norðurslóða, en því eru gerð góð skil í tillögum þingmannahópsins og lagt til að efla mjög.

Hér er líka gerð tillaga um að Akureyri verði norðurslóðamiðstöð Íslands og að það starf, það hlutverk, eigi að efla. Það er í samræmi við stefnu Íslands í málefnum norðurslóða frá árinu 2010 þar sem í greinargerð var reifað að koma á fót alþjóðlegri miðstöð um málefni norðurslóða á Akureyri. Það hefur því miður enn lítið gerst en vonandi verður raunveruleg breyting á með þessari nýju stefnu. Ef við horfum til nágrannaþjóða okkar þá hefur þar verið áhersla á að skipuleggja norðurslóðastarf utan höfuðborganna og þess vegna er sú stefna að byggja upp norðurslóðamiðstöð Íslands á Akureyri mjög í samræmi við það sem gert hefur verið hjá nágrönnum okkar. Þá er mjög góður grunnur fyrir slíka miðstöð fyrir á Akureyri og er ljóst að frekari uppbygging norðurslóðastarfs á Akureyri tryggir til lengri tíma að aðkoma Íslands að samtali um norðurslóðir verði sjálfbær. Það má nefna að Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri sem gott dæmi um stofnun sem nær að margfalda fjárframlög ríkisins með styrkfé úr samkeppnissjóðum erlendis frá. Það sama má segja um Norðurslóðanetið á Akureyri sem hefur fengið styrki víða að bæði innan lands og erlendis.

Herra forseti. Norðurskautsráðið er áhrifamikill vettvangur og kemur víða að málum og í vaxandi mæli. Það er áhugi fyrir verkefninu. Eftir því sem athyglin hefur beinst meira að norðurslóðum af nokkrum ástæðum, þá eru fleiri þjóðir sem telja sig eiga beinna og óbeinna hagsmuna að gæta og vilja tengja sig ráðinu, fylgjast með og hafa áhrif. Það er bara af hinu góða. Nú eru þrettán ríki sem hafa þar áheyrnaraðild, nefna sig gjarnan nágranna norðurslóða þó að þau séu fjarri norðurslóðum. Auk þess eiga á þriðja tug alþjóðlegra stofnana og frjálsra félagasamtaka sömu aðild og áhugi fer vaxandi.

Tillögur starfshóps þingmanna eru nítján talsins og raktar í þeirri tillögu sem hæstv. ráðherra flutti okkur áðan. Ég mun ekki fjalla um þær hér, hverja og eina, en fara almennum orðum um efnið, stikla á stóru og, ef ég má orða það svo, fara á jakahlaupi yfir örfá atriði.

Það sem fljótt kemur upp í hugann er auðvitað mannlífið á norðurslóðum. Aðstæður eru um margt ólíkar en víðast er að finna rótgróin samfélög með sín sérkenni, stolt og rótgróna menningu. Þó eru ýmsir sameiginlegir þættir sem takast þarf á við, svo sem samgöngur, fjarskipti, heilbrigðisþjónustu og menntunarmöguleika. Allt eru þetta lífshagsmunir fyrir alla íbúa en ekki síst fyrir ungt fólk ef litið er til framtíðar og þeirra möguleika, að unga fólkið velji sér norðurslóðir sem vettvang varanlegrar búsetu og uppbyggingar.

Frumbyggjar á norðurslóðum eru einn tíundi íbúanna og eiga sex samtök frumbyggja aðild að Norðurskautsráðinu. Íslendingar hafa í einu og öllu stutt viðleitni þeirra og stefnu í þeirra baráttumálum. Á þessi ofangreindu atriði hefur Vestnorræna ráðið líka lagt áherslu í sínum verkefnum undanfarin misseri með sérstaka áherslu á hlutskipti ungmenna og framtíð ungs fólks á norðurslóðum.

Það eru fjölmörg önnur atriði sem ástæða er til að fjalla um, auk hinnar miklu vár sem felst í hlýnun loftslags og súrnun sjávar. Þessi atriði hafa þó öll tilhneigingu til að tengjast hvert öðru. Aukin umferð um norðurslóðir kallar á sérstaka árvekni, umferð vöruflutningaskipa fer þegar vaxandi og mun gera það enn frekar með opnun siglingaleiða norðurleiðina á næsta áratug eða tveimur, sömuleiðis fer umferð stórra farþegaskipa fjölgandi á norðurslóðum. Hætta á mengunarslysum er raunveruleg og að öryggi sjófarenda sé stefnt í hættu. Viðbúnaði er ábótavant á þessu gríðarlega víðfeðma svæði en leitar- og björgunarsvæði Íslands er t.d. um 1,9 milljónir ferkílómetra, meira en tvöfalt stærra svæði en íslenska efnahagslögsagan. Þar geta aðstæður sannarlega orðið krefjandi. Það er því brýnt að vinna gegn mengunarógn, hvort sem það er af völdum olíuleka, eiturefna, geislavirkra efna eða plastúrgangs. Þetta er tíundað í tillögum hópsins.

Notkun svartolíu í skipasiglingum er alvarlegt áhyggjuefni og henni þarf að ljúka sem fyrst. Ástandið er ógnvekjandi. Náttúruverndarsamtök Íslands hafa bent á að á árabilinu 2015–2019 hafi losun sótagna frá siglingum um norðurslóðir aukist um 72% frá skipum sem brenna svartolíu og um 85% frá öllum skipum sem sigla um norðurslóðir. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Tími minn er á þrotum. Ég vil þó freista þess að nefna flugið og flugkerfi og öryggi bæði sjófarenda og þeirra sem fara um loftin blá. Þar þarf að taka á málum og á það er drepið í tillögum hópsins. Ég hefði viljað ræða ýmis atriði til hlítar ögn lengur en tími minn er því miður búinn.