152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

leiðrétting kjara kvennastétta.

[14:00]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. BHM bendir á í fréttum hjá sér að það sé ójafnt gefið í íslensku samfélagi og þar halli verulega á konur. Á næstu árum þurfi atvinnulíf og heildarsamtök að vinna saman að samfélagssátt og leiðrétta skakkt verðmætamat kvennastarfa á opinberum markaði. Samhliða því þurfi að sameinast um það að stoppa höfrungahlaup sem gæti hlotist af slíkri leiðréttingu. En til þess að það takist þá þurfi skilning meðal almennings og atvinnulífs á því kerfisbundna óréttlæti sem tíðkast einmitt í virðismati á kvennastörfum á opinbera markaðnum.

Þetta er algerlega í takt við þá tillögu sem Viðreisn flutti hér 2017 og var síðan samþykkt, þjóðarsátt um að leiðrétta kjör kvennastétta sem var samþykkt 2018. Það eru fjögur ár síðan. Það hefur, að því er virðist, lítið sem ekkert gerst. Eflaust mun forsætisráðherra koma hingað og segja að það sé búið að gera eitt og annað. Samt fáum við frétt eftir frétt, dag eftir dag, við sjáum ástandið á Landspítalanum, við sjáum þessa beinhörðu staðreynd um að það er bugun í gangi, álag hefur margfaldast og þetta er bein afleiðing af því að það er hjúkrunarskortur í samfélaginu og við horfum ekki upp á meiri jöfnuð í launamun kvennastétta innan hins opinbera.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra af því að glugginn er opinn núna. Ríkisstjórnin missti af boltanum og glugganum við síðustu kjarasamninga en núna eru kjarasamningar að ganga í garð og þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað ætlar ráðherra að gera til þess einmitt að stuðla að því sem við í Viðreisn höfum verið að berjast fyrir og sem launasamtök eins og BHM eru að tala fyrir til þess að leiðrétta kjör kvennastétta? Það er augljóst á því ástandi sem ég gat um áðan á Landspítalanum að það hefur lítið sem ekkert verið gert. Ástandið er verra (Forseti hringir.) en nokkurn tíma fyrr. Hvað ætlar forsætisráðherra að gera til að beita sér (Forseti hringir.) fyrir því að kjör kvennastétta verði leiðrétt?