Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[15:31]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að ítreka stuðning þingflokks Samfylkingarinnar við þá tillögu sem hér er til síðari umræðu og við aðild Svíþjóðar og Finnlands að Atlantshafsbandalaginu. Mig langar af þessu tilefni að minna á í þessu samhengi að Atlantshafsbandalagið er bandalag hervæddra þjóða, þ.e. öll aðildarríki þess nema Ísland búa yfir her og hafa komið sér saman um það að verjast innrásum og byggja það á 5. gr. Norður-Atlantshafssamningsins, sem er auðvitað lykillinn að NATO, lykillinn að þeirri öryggistryggingu sem aðild að Atlantshafsbandalaginu veitir. Það er mjög mikilvægt að skilja þýðingu þess, ekki síst fyrir herlaust land í Norður-Atlantshafi.

Ég hef ekki miklu við það að bæta sem hér stendur í nefndaráliti sem gerð hefur verið grein fyrir. Mig langar að rifja upp, vegna þess að hér eru vina- og frændþjóðir okkar, Svíþjóð og Finnland, að öllum líkindum að ganga í Atlantshafsbandalagið verði aðildarumsókn þeirra samþykktar, sem ég geri ráð fyrir, að aðdragandi þess að Finnland og Svíþjóð ganga í NATO er ekki stuttur. Bæði þessi ríki hafa átt í nánu samstarfi við önnur ríki innan Atlantshafsbandalagsins og einnig auðvitað hér á norðurslóðum árum saman og í því sambandi er gott að rifja upp skýrslu sem Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs og reyndar faðir núverandi framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, skilaði til Norðurlandaráðs með 13 tillögum, og hefur alltaf verið nefnd Stoltenberg-skýrslan, árið 2009. Hún markaði í raun tímamót í norrænni samvinnu á sviði varnar- og öryggismála og þar var opnað á nýja möguleika um nánara samstarf landanna á þessu sviði og nýja hugsun, m.a. þá að Finnar og Svíar gætu stigið inn í loftrýmisgæsluna sem þeir hafa einnig gert. Það að Svíar og Finnar meti hagsmuna sína með þessum hætti í dag ætti í rauninni ekki að koma á óvart en það er líka mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir því að það sem hratt þessari atburðarás af stað er að sjálfsögðu innrás herja Pútíns í Úkraínu, innrás í sjálfstætt og fullvalda Evrópuríki. Við sem sjálfstæð, fullvalda þjóð og lýðræðisríki getum að sjálfsögðu aldrei annað en staðið með Úkraínu og öðrum löndum sem standa í þeirra sporum.

Annað atriði sem ég vildi nefna hér af þessu tilefni er mjög mikilvægt samstarf sem Ísland er aðili að og öll þau lönd sem liggja að norðurslóðum eða að norðurskautinu, og það er Norðurskautsráðið. Alla tíð og frá upphafi Norðurskautsráðsins hefur það verið sameiginlegur skilningur þeirra átta ríkja sem eiga aðild að því að norðurslóðir eigi ekki að vera og geti ekki verið vettvangur vígbúnaðarkapphlaups eða hernaðar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að rifja það upp í þessu samhengi af því að á þeim mikilvæga vettvangi erum við auðvitað líka að ræða um brýnustu öryggismálin. Við erum að ræða um loftslagsmálin, áhrif þeirra á hafið og lífríki norðurslóða, áhrif þeirra á fólkið sem býr á norðurslóðum, sem stundum vill gleymast, og ekki síst á menningu frumbyggja. Innan Norðurskautsráðsins hefur ríkt umtalsverð eindrægni og samstaða um þau verkefni sem þar eru og er skemmst að minnast þess að Ísland var í formennsku fyrir Norðurskautsráðinu 2019–2021 og stóð sig að mínu mati mjög vel á þeim tíma við að marka stefnuna fram á við fyrir Norðurskautsráðið. Nú er, eins og þingmenn eru væntanlega meðvitaðir um, starf þess ágæta ráðs í lamasessi, ætli það sé ekki best að orða það þannig, vegna þess að við formennskunni 2021 tóku Rússar. Ég ætla að koma hingað upp til að lýsa þeirri von minni að samstarf ríkja á norðurslóðum, þeirra átta ríkja sem sitja í Norðurskautsráðinu, geti haldið áfram þegar fram í sækir á þeim grunni sem það hefur verið. Ég held að það skipti Ísland meira máli en margir átta sig á og að það sé mjög mikilvægt að stuðla að því í framhaldinu.

Það var í raun ekki annað sem ég vildi nefna hér, frú forseti, en ítreka stuðning Samfylkingarinnar við stækkun Atlantshafsbandalagsins og við þá nauðsyn að við stöndum með sjálfstæðum fullvalda þjóðum gegn ólöglegum innrásarstríðum eins og því hörmulega stríði sem við nú horfum upp á hvern einasta dag í Evrópu.