Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[17:43]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir prýðisræðu. Þau atriði sem mig langar að fá samtal við hv. þingmann um eru þessar áherslur sem hv. þingmaðurinn lýsti að hefðu komið fram í umræðum gesta og annarra í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þegar skýrslan var til umræðu. Við höfum haft geðheilbrigðisstefnu til 2020 sem hefur verið með ákveðnum áhersluatriðum og það er ekkert launungarmál að þar eru ákveðnar áherslur sem ekki hefur verið klárað að innleiða. Við erum síðan með þingsályktunartillögu sem felur í sér stefnu til tíu ára til viðbótar, til 2030, og ég tek undir að það er mikilvægt að við förum að klára þau mál. Ég segi það þó án ábyrgðar, ég hef ekki lesið málið sjálft og get því ég ekki fullyrt um hvaða breytingar ég myndi vilja sjá þar. En það er ákveðið gat þarna á milli. Hv. þingmanni varð tíðrætt, og það með réttu, um einmanaleika og kvíða og þessa hluti sem liggja til grundvallar vægu þunglyndi og vanlíðan, sem er svokallað fyrsta stigs einkenni og getur leitt til geðraskana sem þurfa vissulega aðstoðar við. Skýrslan sem við ræðum setur hins vegar meiri fókus á stóru, þungu málin og aftur fullkomlega skiljanlega. Í ljósi stöðunnar er ekki hægt að komast hjá því að hafa ákveðnar áhyggjur af því að þegar áherslan fer á þessi stóru og þungu mál inni á geðdeild spítalans, fer á þessar þungu og erfiðu meðferðir þar sem úrræði skortir af alls konar ástæðum, þá flytjist áhersla þeirra sem vinna í þessum málaflokki frá þessum vægari atriðum sem þingmaðurinn nefndi einmitt áðan.

Mig langaði til að byrja á því að spyrja: (Forseti hringir.) Er þetta eitthvað sem var rætt á fundi nefndarinnar sem hluti af málinu? Það litla sem ég veit um þessa nýju þingsályktunartillögu er að þar eru menn líka að fókusera á þungu málin.