Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[17:56]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er sammála því að þetta er í raun ekki grátt svæði heldur svart. Ríkisendurskoðun er sammála okkur, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun telur óásættanlegt að enn geti komið upp þær aðstæður að óljóst sé hver beri ábyrgð á og kostnað af sértækri geðþjónustu þótt vandinn hafi verið kunnur um langa hríð. Hagsmunir sjúklinga fyrst og fremst ásamt sjónarmiðum um hagkvæmni úrræða kalla á tafarlausar lausnir.“

Ég er sammála. Við verðum að bregðast við. Við erum ekki með viðeigandi húsnæði. Þá langar mig að vísa í þingsályktunartillögu okkar í Samfylkingunni, sem við höfum lagt fram oftar en einu sinni, varðandi það að fara í uppbyggingu á húsnæði fyrir geðheilbrigðisþjónustu.

Eins og staðan er í dag eru allar geðdeildirnar hér á landi, sem eru á sjúkrahúsinu á Akureyri, á Landspítala við Hringbraut og á Kleppi, í húsnæði sem er óboðlegt, því miður. Í dag fengum við fregnir af fólki sem er nauðungarvistað og fyrsta 21 dag nauðungarvistunar í þrjár heilar vikur eftir að nauðungarvistun er framkvæmd, sem er mjög íþyngjandi og dramatísk aðgerð fyrir einstaklinga, getur viðkomandi einstaklingur ekki komast út undir bert loft og fengið súrefni. Maður hefur heyrt hrikalegar sögur af fólki sem beinlínis reynir að anda í gegnum lítið op á glugga — það fær auðvitað súrefni í herberginu, en lýsingarnar á þeirri tilfinningu að vera svona innilokaður eru skelfilegar. Þá hugsar maður: Bíddu, er ekki árið 2022? Eigum við ekki bara að fara í þetta?